Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur eðlilegt að laun hér á landi hækki um rétt rúmlega verðbólgu. Þetta kom fram í máli Bjarna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni. Engu síður mætti gera ráð fyrir að kaupmáttur héldi áfram að aukast.

„Það stendur upp á fjármálaráðherra að skýra þessi orð þar sem það blasir við að svigrúm til launahækkana samræmist ekki því svigrúmi sem hann nefnir," sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki væri búið að semja um þetta. „Það er ekki eðlilegt að fjármálaráðherra gefi sér niðurstöðu samninga fyrir fram," segir Drífa.

Verðbólga verður að meðaltali 5,9% á árinu samkvæmt hagspá Hagstofunnar sem birt var fyrr í vikunni. Lífskjarasamningarnir renna sitt skeið í haust og því styttist í að kjaraviðræður hefjist. Þá er ljóst að svokallaður hagvaxtarauki verði greiddur vegna hagvaxtar á síðasta ári í samræmi við lífskjarasamninginn.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á þriðjudagsmorgun að hann hefði efasemdir um hve skynsamleg ráðstöfun launahækkunin væri miðað við núverandi efnahagsaðstæður. Verðbólga mælist nú 6,7% og hefur ekki verið hærri frá árinu 2010. Verkalýðshreyfingin er komin upp á afturlappirnar vegna ummæla Ásgeirs og segir að minna heyrist vegna launahækkana efstu laga í samfélaginu í aðdraganda kjarasamninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .