Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa undanfarnar vikur birt uppgjör sín fyrir árið 2021 og högnuðust þeir samanlagt um rúman 81 milljarð króna. Um er að ræða 173% aukningu hagnaðar á milli ára og hefur þessi bætta afkoma vakið talsvert umtal víða í samfélaginu.

Sérstaklega mikla athygli vöktu ummæli Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra í viðtali við Morgunblaðið þann 10. febrúar síðastliðinn þar sem hún sagði meðal annars að bankarnir væru að skila „ofurhagnaði" og hann ætti að nota til að greiða niður vexti almennings. Færu bankarnir ekki að huga að heimilum í landinu ætti að „endurvekja bankaskattinn" svokallaða. Vísar hún þar til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sem nemur í dag 0,145 prósentum af heildarskuldum umfram 50 milljarða króna, en árið 2020 var skatturinn lækkaður úr 0,376 prósentum sem hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.

Upphaflega var bankaskatturinn settur á árið 2010, m.a. til að mæta miklu tekjufalli ríkissjóðs vegna fjármálahrunsins, en frá upphafi voru áform um að skatturinn skyldi lækkaður með tíð og tíma. Þannig kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra árið 2019 frumvarp um lækkun bankaskatts í þrepum til ársins 2024, en þeim áformum var flýtt vegna heimsfaraldursins. Bjarni sagði í kjölfar ummæla Lilju á dögunum að engin áform væru um hækkun bankaskatts og að hann væri á móti hugmyndinni um slíkan skatt almennt.

Milljarðar í skatta og arðgreiðslur

Bættri afkomu bankanna fylgja umtalsverðar tekjur fyrir ríkissjóð í formi skatttekna og arðgreiðslna. Heildararðgreiðslur bankanna þriggja nema tæpum 48 milljörðum króna og rennur þar af tæpur 21 milljarður til ríkissjóðs frá Landsbankanum og Íslandsbanka. Þá munu bankarnir þrír greiða 18 milljarða króna í tekjuskatt og 14 milljarða í sérstaka skatta sem lagðir eru á fjármálafyrirtæki.

Áðurnefndur bankaskattur mun skila 5,3 milljörðum króna, fjársýsluskattur sem lagður er á 5,5% launagreiðsla mun skila um 3,3 milljörðum króna og sérstakur fjársýsluskattur á hagnað fjármálafyrirtækja mun skila allt að 5 milljörðum króna, sem er talsvert umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum vegna bættrar afkomu. Að viðbættu tryggingagjaldi og fasteignagjöldum munu bankarnir greiða um 57 milljarða króna til ríkissjóðs á árinu.

Því til viðbótar hefur markaðsvirði 65% hlutar ríkisins í Íslandsbanka hækkað um meira en 60 milljarða frá því að bankinn var skráður á markað síðastliðið sumar og er nú um 165 milljarða króna virði. Þá nam bókfært eigið fé Landsbankans 282 milljörðum króna um síðustu áramót.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .