Leigubílafyrirtækið Uber hyggst leggja frekari áherslu á hjól og rafhjól samkvæmt frétt BBC . Að mati forstjórans, Dara Khosrowshahi eru einmennings farartæki betur til þess fallinn að fara á milli staða í stórborgum heldur en bílar. „Það er mjög óskilvirkt í mikilli umferð að nota málmhlunk sem vegur heilt tonn til að ferja eina manneskju,“ sagði Khosrowshahi.
Að sögn forstjórans þá gæti þessi ákvörðun komið niður á félaginu fjárhagslega til skamms tíma en þetta sé ákvörðun sem sé fyrirtækinu fyrir bestu. Uber, sem tapaði 4,5 milljörðum dollara á síðasta ári er undir mikilli pressu um að bæta fjárhagsstöðu félagsins áður en félagið verður skráð á hlutabréfamarkað. Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist þá hefur kostnaður við að komast inn á ný markaðssvæði eins og hjól og matarsendingar aukist hraðar sem hefur leitt til frekari tapreksturs.