Leigubílaþjónustan Uber tapaði tæpum hálfum milljarði dala árið 2021. Tap félagsins dróst töluvert saman milli ára, en árið 2020 tapaði félagið tæpum 6,8 milljörðum Bandaríkjadölum.

Tekjur fyrirtækisins námu 5,78 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi, en þær jukust um 83% milli ára. Í frétt Wall Street Journal segir að auknar bílferðir og aukin eftirspurn eftir heimsendingu á mat á árinu hafi leitt til tekjuaukningarinnar milli ára. Félagið hagnaðist um 892 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi, en félagið tapaði 968 milljónum dala á sama fjórðungi árið áður.

Bókaðuðum bílferðum fjölgaði um 67% milli ára á fjórða ársfjórðungi og heimsendingar á mat jukust um 34% á sama tímabili. Uber voru með 118 milljónir virka notendur á fjórðungnum, sem er met hjá félaginu.

Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um rúm 18% á síðastliðnum fimm dögum, og stendur í 41 dölum á hlut.