Kosningum á www.hverfidmitt.is lauk miðnætti í gærkvöldi, sunnudaginn 19. nóvember. Met í þátttöku hafði þegar verið slegið, kl. 15:00 í gær, en þá höfðu 10.106 Reykvíkingar kosið, sem er 9,9% kosningaþátttaka. Þátttaka í fyrra var 9,4% sem þá var einnig met.  Miðað við þátttöku undanfarnar klukkustundir fer kosningaþátttaka vel yfir 10%.

Verkefni sem verða valin koma til framkvæmda á næsta ári, en kosið var á vefsíðunni Hverfidmitt.is. Gátu allir íbúar Reykjavíkur fæddir árið 2001 eða fyrr kosið, það er þeir sem eru 16 ára á árinu og eldri. Það þýðir að á kjörskrá voru nærri 102 þúsund manns, eða 101.956, en mögulegt var að kjósa oft – en það er síðasta greidda atkvæðið sem telur.

Í ár var sú nýjung að kjósandi gat stjörnumerkt hugmynd og fær hún þá tvöfalt vægi atkvæða, en atkvæði er greitt þegar íbúi hefur auðkennt sig með Íslykli eða rafrænum auðkennum. Samt sem áður er atkvæðagreiðslan sögð leynileg í fréttatilkynningu frá Reykjavík.

Íbúar gátu kosið um 220 verkefnahugmyndir sem stillt hafði verið upp með frumhönnun og kostnaðaráætlun og gátu íbúar kosið upp að vissri fjárhæð en þurfa ekki að fullnýta hana. Framkvæmdafé er 450 milljónir í ár eins og í fyrra, en öll hverfin fá grunnupphæð 11,25 milljónir og síðan hlutfallslega eftir íbúafjölda.

Fjölmennasta hverfið, Breiðholt, fær því rúmar 70 milljónir, en það fámennasta, Kjalarnes, 13,5 milljónir. Þetta er í sjötta sinn sem verkefnið er keyrt, en áður hét það Betri Hverfi. Í hvert sinn hafa verður gerðar endurbætur á ferlinu allt frá hugmyndasöfnun til framkvæmda.