Algalíf, sem sérhæfir sig í framleiðslu á örþörungum, tapaði 141 milljón króna á síðasta ári samanborið við 547 milljóna tap árið 2020. Tekjur fyrirtækisins jukust um 19% á milli ára. Í fyrra námu þær 1.507 milljónum, sem er 244 milljónum meira en árið á undan.

Reiknað er með því að umfang rekstrar muni vaxa á næstu árum því félagið er að byggja nýja verksmiðju, sem mun auka framleiðslugetu um allt að 200%. Stefnt er að því að hefja framleiðslu í nýju verksmiðjunni strax á þessu ári en að á því næsta muni hún ná fullri afkastagetu.

Samsetning gjalda tók stakkaskiptum
Rekstrargjöld námu 1.634 milljónum og drógust lítillega saman milli ára, en samsetning þeirra breyttist hinsvegar töluvert. Kostnaðarverð seldra vara hækkaði um 16% í svo til sléttan milljarð, og launakostnaður tæplega tvöfaldaðist í 150 milljónir.

Annar rekstrarkostnaður ríflega helmingaðist hinsvegar og nam tæpum 150 milljónum, og afskriftir féllu um 15% og námu 333 milljónum. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 50 milljónir samanborið við tæpar 300 árið áður, en breytingin skrifast á gengismun sem var neikvæður um 284 milljónir árið 2020 en aðeins 17 í fyrra.

Tvöföldun launakostnaðar skýrist af eign- og gjaldfærslu. Þrátt fyrir nettó launakostnað upp á aðeins 150 milljónir námu greidd laun 364 milljónum og hækkuðu um fimmtung milli ára, og með launatengdum gjöldum nam kostnaðurinn 436 milljónum.

Því til frádráttar kemur síðan eignfærsla sem þróunarkostnaður og rekstrarfjármunir upp á 100 milljónir, og gjaldfærsla á framleiðslukostnað upp á 185 milljónir. Ársverk voru 38 og fjölgaði um 7, sem þýðir að meðallaun námu rétt tæpum 800 þúsund krónum í fyrra og lækkuðu um 2% milli ára.

Nýja verksmiðjan og brotthvarf stórrar skuldar þrefölduðu eigið fé
Á nýársdag í fyrra yfirtók Algalíf systurfélag sitt Keflavík properties og er efnahagsreikningur fyrra árs því gefinn fyrir 1. janúar 2021 í stað 31. desember 2020 eins og venja er. Þrátt fyrir það jukust heildareignir um tæpa tvo milljarða eða 61% úr 3,1 milljörðum í 5 á síðasta ári. Eigið fé þrefaldaðist einnig úr 660 milljónum í 2 milljarða og eiginfjárhlutfall tvöfaldaðist því úr 21% í 40%.

Bróðurpartur aukningarinnar er til kominn vegna liðarins rekstrarfjármunir í byggingu, sem er metinn á 1.340 milljónir í lok síðasta árs, en stóð á núlli í upphafi þess. 1.525 milljónum króna var varið í rekstrarfjármuni í byggingu á árinu samkvæmt sjóðstreymisyfirliti, og er þar væntanlega um hina nýju verksmiðju að ræða.

Ný langtímalán voru tekin upp á tæpar 700 milljónir auk þess sem skuldir við tengda aðila upp á 1.308 milljónir í upphafi árs er hvergi að finna í lok árs. Fram kemur í sjóðstreymisyfirliti að breyting á þeim hafi skilað félaginu 1.249 milljónir af handbæru fé.