Velta á innlendum skuldabréfamarkaði nam 329,6 milljörðum á öðrum ársfjórðungi þessa árs og jókst um 43% frá því á sama tímabili í fyrra. Velta á markaðnum hefur tekið talsvert við sér það sem af er þessu ári eftir að hafa dregist nær samfellt saman frá þriðja ársfjórðungi árið 2015 til þriðja ársfjórðungs í fyrra. Velta á fyrri hluta ársins nam 711,3 milljörðum sem er 41% aukning frá því á sama tíma í fyrra og hefur ekki verið hærri á einum árshelmingi síðan á seinni hluta árs 2016.

Að sögn sérfræðinga á markaði sem Viðskiptablaðið ræddi við hefur afnám sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsstreymi erlendra fjárfesta á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnistæður, betur þekkt sem innflæðishöft, haft langmest að segja um aukna veltu á markaði með skuldabréf. Afnám haftanna í byrjun mars hafi orðið til þess að koma skuldabréfamarkaðnum aftur á kortið hjá erlendum fjárfestum sem tóku nær ekkert þátt í markaðnum vegna haftanna. Þá hafi „endurkoma“ erlendra fjárfesta orðið til þess að bæta skoðanaskipti á markaðnum þar sem þeir breikka flóru þeirra aðila sem eru á markaðnum. Þessu til viðbótar hafi lífeyrissjóðir verið virkari á markaðnum en á sama tíma í fyrra.

Fyrir ári fjallaði Viðskiptablaðið um stöðuna á markaðnum en þá hafði skuldabréfamarkaðurinn náð ákveðnum botni hvað varðar veltu og var í raun á svipuðum slóðum og árið 2003. Voru ástæður minni veltu þá helst raktar til innflæðishaftanna og lítilla umsvifa lífeyrissjóða. Má því segja að þessi áhrif hafi að mörgu leyti gengið til baka. Þá bentu viðmælendur blaðsins einnig á að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi verið veltuhvetjandi auk þess sem lækkun á ávöxtunarkröfu hefur einnig haft jákvæð áhrif en sem dæmi má nefna að ávöxtunarkrafa vísitölu Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf lækkaði úr 5,3% í byrjun mars í 3,86% í lok júní.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .