Árshækkun neysluverðs í Tyrklandi nam 54,4% í febrúar en greiningaraðilar höfðu spáð 53% hækkun. Verðbólgan hækkaði úr 48,7% í 54,4% milli mánaða og hefur nú ekki verið meiri í tvo áratugi. Þetta kemur fram í grein Reuters .

Verðbólgan í Tyrklandi hefur vaxið ört á undanförnum níu mánuðum, en seðlabankinn lækkaði meginvexti um 500 punkta á síðasta ári eftir mikinn þrýsting frá forseta Tyrklands, Tayyip Erdogan. Talið er að verðbólgan muni halda áfram að aukast, en verð á jarðgasi, hráolíu og korni hefur hækkað ört í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu.

Verðbólguþrýstingurinn hefur einnig orðið til vegna falls lírunnar, gjaldmiðils Tyrklands. Undir lok síðasta árs hafði gjaldmiðilinn fallið um meira en 60% gagnvart dollaranum eftir miklar stýrivaxtalækkanir.

Tyrkneski Seðlabankinn áætlar að verðbólgan fari niður í 23,2% í lok árs. Þó eru hagfræðingar ekki á sama máli sem spá því að hún verði nær 40% í lok árs.

Sjá einnig: Rak hagstofustjórann eftir met verðbólgu

Nú á dögunum rak Erdogan hagstofustjóra landsins, Sait Erdal Dincer, eftir að hagstofan birti tölur um hæstu verðbólgu í landinu í 19 ár, en hún mældist 36,1% á síðasta ári.

Dincer er einn af fjölmörgum sem Erdogan hefur látið fara á undanförnum árum. Þar á meðal eru þrír seðlabankastjórar frá árinu 2019.