Boðað verkfall Eflingar mun hafa áhrif á fjölmargar farþegaferðir Strætó, bæði innan höfuðborgarsvæðisins sem og á landsbyggðinni, auk ferða fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks. Uppfært, Efling hefur ákveðið að verkfallið muni ekki hafa áhrif á ferðaþjónustu fatlaðra.
Þó mun verkfallið ekki hafa áhrif á leiðir 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7 og 18, enda allir bílstjórar á þeim beinir starfsmenn Strætó og því ekki félagsmenn Eflingar. Hins vegar hefur verkfallið áhrif á leiðir 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17,21, 22, 23, 24, 28, 31, 33, 34, 35, 36, 43 og 44.
Ástæðan er sú að um fjórðungur af um 90 bílstjórum sem sinna akstursþjónustu fatlaðra eru félagsmenn í Eflingu auk þess sem tvö af félögunum sem verkföllin beinast sérstaklega að, Hópbílar og Kynnisferðir eru verktakar félagsins.
Loks eru hluti af vagnstjórum Hagvagna félagsmenn í Eflingu en þeir keyra einnig hluta af leiðum Strætó. Eru Hópbílar einn stærsti verktakinn sem sinnir akstri fyrir Strætó á landsbyggðinni meðan Kynnisferðir og Hagvagnar keyra innanbæjar.
Dagana 23. til 29. mars munu vagnstjórar félaganna stöðva vagninn daglega klukkan 16:00 í 5 mínútur á stoppistöð, svo gera má ráð fyrir seinkunum á þeim leiðum sem þetta á við í kjölfarið. Dagana 1. til 30. apríl verður svo vinna lögð niður hvern dag frá 7:00 til 9:00 og aftur frá 16:00 til 18:00.