Þann 18. maí síðastliðinn tilkynnti Icelandair Group að ákveðið hefði verið að að selja hótelrekstur félagsins sem hefur verið rekið undir nafni Icelandair Hotels. Þar sem hótelreksturinn er til sölu var hann nú tilgreindur sérstaklega í uppgjöri félagsins. 2,9 milljóna dollara tap var af rekstrinum á fyrri helmingi þessa árs og tvöfaldaðist frá sama tímabili í fyrra þegar það nam 1,4 milljónum.

Tekjur af rekstrinum námu 51 milljón dollara á fjórðungnum sem er 5 milljónum meira en á síðasta ári. Í efnahagsreikningi Icelandair Group eru heildareignir hótelrekstrarins bókfærðar á 133,5 milljónir dollara eða því sem nemur rúmlega 14 milljörðum króna. Virði eigna hótelrekstrarins að frádregnum skuldum nemur 76 milljónum dollara í bókum félagsins.

Að sögn Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, lítur árið 2018 þó vel út fyrir Icelandair Hotels, bókunarstaðan fyrir seinni hluta ársins er góð og gera stjórnendur félagsins ráð fyrir því að afkoma af hótelrekstri verði betri á þessu ári en í fyrra. Hagnaður Icelandair Hotels nam 246 milljónum króna á síðasta ári.