Yfirskattanefnd (YSKN) féllst nýverið að stærstum hluta á niðurstöðu Skattsins í máli sem varðar endurákvörðun tekju- og fjármagnstekjuskatts Þorsteins M. Jónssonar, oft nefndur Steini í kók, gjaldárin 2012-14 og 2016. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að annmarkar hafi verið á meðferð Skattsins á málinu en þó ekki slíkir að það dygði til að ómerkja úrskurðinn.

Málið teygir anga sína aftur til ársins 2011 þegar Vífilfell, hvar einkahlutafélag Þorsteins var stærsti eigandi og hann um skeið forstjóri eða formaður stjórnar, var selt til hins spænska Cobega. Þorsteinn var sjálfur handhafi átöppunar- og framleiðsluleyfis Coca Cola á Íslandi og hafði því umsjón með gerð sölunnar.

Samhliða gerðu aðilar með sér samkomulag um að Þorsteinn myndi ekki stunda samkeppni hér á landi við nýjan eiganda félagsins eða veita samkeppnisaðilum ráðgjöf. Samningurinn var til fimm ára og skyldu greiðslur samkvæmt honum vera tvær, önnur árið 2011 og hin árið 2015. Bar að greiða þá seinni ef samkomulagið væri að fullu efnt.

Árið 2011 færði Þorsteinn lögheimili sitt til Lúxemborgar og stóð skil á skattgreiðslum vegna tekna af fjármálaráðgjöf þar. Fimm árum síðar barst hinu sáluga embætti skattrannsóknarstjóra bréf frá systurstofnun sinni ytra þar sem athygli var vakin á greiðslum samkvæmt samkomulaginu. Rétt er að geta þess að samkvæmt lögum ytra voru þær ekki skattskyldar þar.

Styttri dvöl úti

Byggt hafði verið á því við álagningu á gjaldárunum 2012-15 að Þorsteinn hefði takmarkaða skattskyldu hér á landi. Í kjölfar ábendingarinnar hóf Skatturinn aftur á móti könnun á málinu. Lauk því í desember 2017 þar sem Þorsteinn var úrskurðaður inn í landið hvað skattalega heimilisfesti varðar. Sú niðurstaða var síðan staðfest af YSKN í mars 2019 í ljósi þess að dvalardagar Þorsteins hvert ár hefðu verið fleiri hér á landi en úti. Í úrskurðinum var tekið fram að annmarkar hefðu verið á málsmeðferð og rökstuðningi Skattsins – rekstur málsins hefði dregist fram úr hófi og tilvísanir til laga hefðu ekki verið fullnægjandi – en þeir hefðu þó ekki verið slíkir að það hefði valdið réttarspjöllum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .