Framtakssjóðurinn VEX I og meðfjárfestar munu eignast allt að helmingshlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Annata og mögulega verður félagið skráð á markað á næstu árum. Annata er nú í örum vexti eftir tveggja áratuga uppbyggingu, sem hefur skilað því afar sterkri stöðu á sínum markaði, að sögn forstjórans Jóhanns Ólafs Jónssonar.

Annata þróar og selur viðskiptalausnir byggðar á skýjalausn Microsoft, Azure, og tengdum kerfum, fyrir bifreiða- og tækjaiðnaðinn, og hefur skipað sér í innsta hring meðal samstarfsaðila tæknirisans. Síðustu fimm ár hafa verið mikið umbreytingatímabil þar sem fjárfest hefur verið gríðarlega í þróun á eigin skýjalausnum Annata sem hafa síðan lagt grunninn að mikilli uppbyggingu félagsins erlendis og tekjuaukningu, meðal annars með stofnun dótturfélags.

Afrakstur þeirrar vinnu hefur ekki staðið á sér. Tekjuvöxtur félagsins var um 45% á milli áranna 2020 og 2021 en félagið velti rúmlega fimm milljörðum króna á síðasta ári og EBITDA félagsins er áætluð um 1,6 milljarðar árið 2021. Félagið er með starfsfólk í 13 löndum, selur lausnir til um eða yfir 100 landa, og yfir 95% tekna þess koma erlendis frá.

Samhliða uppbyggingu félagsins hefur verið unnið að því að finna utanaðkomandi hluthafa til að vinna með eigendum – sem samanstanda af stofnendum og stjórnendum – að frekari framgangi og að raungera þá framtíðarsýn sem mótuð hefur verið. Þessari vinnu lauk um áramótin þegar samningar náðust við VEX um kaup í félaginu.

Jóhann segir hluthafahópinn horfa til þess að fara í þriggja til fimm ára vegferð þar sem byggt verði á góðum árangri síðustu ára og tækifæri til frekari vaxtar þroskuð. Áhugi er innan hluthafahópsins fyrir því að skrá félagið á aðalmarkað, jafnvel tvískráningu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .