„Það hallar verulega á konur þegar kemur að hlutfalli kvenna sem viðmælenda í fréttum og þar sem FKA er hreyfiafl í íslensku samfélagi hefur verið ákveðið, í samvinnu við RÚV, að vera með hagnýtt viðmælendanámskeið fyrir konur í sérfræðistörfum í Efstaleitinu í byrjun febrúar. Þar fá þátttakendur leiðsögn reynds fjölmiðlafólks og tækifæri til að spreyta sig sem viðmælendur við raunverulegar aðstæður í útvarpi og sjónvarpi," segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu. Bendir hún á að umsóknarfrestur sé til og með 8. janúar.

Röntgenmynd af mjöðmum

FKA gerði könnun meðal frétta- og dagskrárgerðarmanna í fréttatengdum þáttum á ljósvakamiðlum RÚV, Stöðvar 2 og Hringbraut. Spurt var hvort erfiðara væri að finna konur sem viðmælendur á einhverjum tilteknum sérsviðum," segir Andrea. „Níu sérsvið voru oftast nefnd og er verið að bregðast við því. Sjávarútvegur var þar efst á blaði, auk upplýsingatækni, upplýsingaöryggis, orkumála, íþrótta, viðskipta, nýsköpunar, vísinda og stjórnmála. Að þessu sinni er því leitað að konum með sérþekkingu á þessum sviðum, en gert er ráð fyrir að 12 konur komist að í þjálfuninni,“ segir Andrea sem finnur fyrir miklum áhuga á verkefninu.

„Ég persónulega eflist við mótlæti en tapa algjörlega gleðinni þegar ég sé röntgenmynd af mjöðmum fylgja greinum og viðtölum við konur. Það eru margir einstaklingar þarna úti sem eru mér sammála. Myndbirtingar eru oft á tíðum furðulegar og nafnbirtingar hafa verið til skammar, myndir af körlum með nöfn og titla en nafnlausar konur voru það áberandi á árinu sem leið að fjallað var um konu Magnúsar í Skaupinu í ár. Þar var væntanlega verið að vísa í grein sem Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA skrifaði í lok síðasta árs undir heitinu „Kona Magnúsar skipstjóra skrifar“ til að vekja athygli á óeðlilegu nafnleysi í myndbirtingum hjá fjölmiðlum."

Aukið aðgengi fjölmiðlafólks að konum með sérþekkingu

Andrea segir að með námskeiðinu sé markmiðið að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og bæta um leið aðgang fjölmiðlafólks að konum með sérþekkingu sem algengt er að skorti þegar leitað er að viðmælendum í fréttir og fréttatengda þætti.

„Þarna er verið að draga fram í sviðsljósið sérfræðinga í þeim tilgangi að rétta hlut kynjanna í fréttum og fréttatengdu efni og þannig getum við orðið öðrum löndum til fyrirmyndar. Þrátt fyrir síaukna menntun kvenna og 'MAN kosti' hafa þær síður náð í æðstu stjórnunarstöður sem er hið furðulegasta mál. Rýr hlutur kvenna sem viðmælenda í fréttum skýrist að hluta vegna þess að konur skipa ekki efstu stöður en að sjálfsögðu eiga fullt af konum að vera inni á radarnum. Heildarmyndin er pixluð eins og staðan er í dag og það er þörf á að ná nýrri og betri upplausn í fréttir, fá fleiri kyn fram á sjónarsviðið fyrir komandi kynslóðir til að máta sig við," segir Andrea og bendir á að FKA hafi í langan tíma beitt sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í fjölmiðlum og því eigi verkefnið sér langa sögu. „Í upphafi árs 2019 var undirritaður samningur FKA og RÚV til þriggja ára um verkefni sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum. Ég vil að ungar stúlkur geti bent á flottar fyrirmyndir í fjölmiðlum og sagt: Hei kona, þú ert okkar Lennon !" segir Andrea.

FKA styður kvenleiðtoga í að sækja fram

„Nýjasta árlega skýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins sem fjallar um kynbundið jafnrétti - eða ójafnrétti bendir til þess að það mun taka 99,5 ár að ná fullkomnu kynjajafnrétti í heiminum. FKA er alltof óþolinmótt fyrir þennan hraða snigilsins. Það er ekkert betra en að fjárfesta í sjálfri sér með því að byrja á að skrá sig í Félag kvenna í atvinnulífinu. Konur sem vilja stórefla tengslanetið sitt, styrkja sig og hafa áhrif til eflingar íslensks atvinnulífs eru hvattar til að taka þátt í starfi FKA . Það er þó mikilvægt að vekja athygli á því að í þessu tiltekna verkefni er ekki skilyrði að umsækjendur séu félagskonur í FKA . Það er gert til að gefa öllum konum tækifæri óháð því hvort þær eru í FKA eða öðrum hagsmunafélögum kvenna. Allar þurfa þær samt að uppfylla ákveðin skilyrði og skuldbinda sig til að deila reynslu sinni með konum í Félagi kvenna í atvinnulífinu meðal annars á Sýnileikadegi FKA sem haldinn verður 28. mars."

Sérstök valnefnd fer yfir umsóknir og nánari upplýsingar um skilyrðin sem þarf að uppfylla til að fá aðgang að fjölmiðlaþjálfuninni, leiðbeinendur, umsókn og ferlið má finna á fka.is .

„Hlutfall kvenna í fréttum er langt frá því að vera ásættanlegt og fjarri því að endurspegla þjóðina alla. Breytingar í jafnréttisátt gerast sjaldan af sjálfu sér og þörf er á samræmdu átaki. Gleðifréttin er sú að við getum breytt þessu sem er svo gaman."