Fjármálafyrirtækið Arctica Finance hagnaðist um 68 milljónir króna árið 2020 miðað við 304 milljóna tap árið 2019. Viðsnúningurinn skýrist einna helst af vexti þóknanatekna úr 351 milljón í 588 milljónir og 218 milljóna niðurfærslu verðbréfa árið 2019 sem var ekki til staðar í ár. Launakostnaður lækkar um 6% og nam 283 milljónum en ársverkum fækkaði úr 19 í 16.

Fjárhagur félagsins var endurskipulagður í september. Félagið greiddi 435 milljónir í arð til móðurfélagsins Eignarhaldsfélagsins Arctica. Allir útgefnir hlutir í B-, C- og D-flokki voru felldir niður og nýir hlutir seldir í A- og B-flokki fyrir 116 milljónir króna.

Þá seldi Arctica nær öll verðbréf í eigu félagsins fyrir 341 milljón króna á árinu. Því lækka eignir úr 676 milljónum í 300 milljónir og eigið fé úr 622 milljónum í 229 milljónir á milli ára.

Stærstu hluthafarnir eru Bjarni Þórður Bjarnason aðstoðarframkvæmdastjóri og Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri.