Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið TripCreator hóf á fimmtudagsmorgun í síðustu viku að bjóða ferðaskipuleggjanda sinn á nýjan hátt, sem þeir kalla TripCreator Free Forever. Á hinu ástkæra ylhýra mætti útleggja það sem ókeypis ferðaskipuleggjandi til eilífðar. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða þjónustu sem fyrirtækið hyggst bjóða ókeypis og hefur Hilmar Halldórsson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, trú á því að þessi breytta þjónusta muni umbylta markaðnum fyrir alls konar ferðaskipuleggjendur.
„Við erum að gjörbylta því hvernig ferðaskipuleggjendur vinna vinnuna sína, þar sem við erum að bjóða kerfið okkar frítt til þeirra sem ekki hafa áður haft tök á því að tengjast vörusöfnum á netinu. Kerfið byggir á því að búa til ferðaáætlanir frá A til Ö, þar sem þú getur séð flug, bíl, hótel, ferðir, afþreyingu og áhugaverða staði, allt á einum stað. Með þessari þjónustu erum við að mæta þörf lítilla og millistórra ferðaaðila, hvort sem það eru ferðaskrifstofur og skipuleggjendur eða þeir sem halda úti sérhæfðum ferðum og jafnvel ferðabloggurum og svo framvegis með því að tengja þá við alþjóðlega birgja í ferðaiðnaðinum,“ segir Hilmar um kerfið.
„Hingað til hafa fyrirtæki í þjónustu hjá okkur verið að borga fast mánaðargjald, allt frá 39 Bandaríkjadölum á mánuði sem var ódýrasta þjónustan okkar, upp í 400 dali á mánuði. Einnig bjóðum við stærri fyrirtækjum Premium aðgang að ferðaskipuleggjandanum, þar sem við veitum sérhæfðari þjónustu í uppsetningum og tengingum við vöru- og bókunarkerfi. Þar geta þau greitt alveg upp í einhverjar hundruð og jafnvel þúsundir dala, það fer allt eftir þeirri sölu sem fer í gegnum kerfið.“
Hilmar segir skiljanlegt að mörgum ferðaþjónustuaðilum sárni háar þóknanir sem stóru bókunarsíðurnar eru að taka. „Við hjá TripCreator bætum sjálf engum viðbótarþóknunum við það sem birginn gefur út. Með Free forever-kerfinu deilum við aftur á móti þeirri söluþóknun sem við fáum frá alþjóðlegu birgjunum sem við erum með samninga við, með viðskiptavinum okkar, það er söluaðilunum sjálfum sem nota kerfið. Við tökum svo ekki krónu í söluþóknun ef þú ert ferðaskipuleggjandi og ert þegar með samninga við einhverja aðila en notar kerfið okkar til að setja upp ferðina þína,“ segir Hilmar.
„En um leið og þú sem söluaðili ferð að bæta inn í áætlanir þínar til dæmis hótelum, bílaleigum, eða afþreyingu sem eru í gegnum þessa alþjóðlegu birgja sem við erum með samninga við, og þá í gegnum okkur, þá fáum við hluta af því, en við skiptum söluþóknuninni með þér.“
Hjá TripCreator starfar nú 21 starfsmaður í þremur löndum, í höfuðstöðvunum hér á landi, söluskrifstofu í London og loks fer megnið af forritunarvinnunni fram í Vilníus í Litháen. Samhliða því að fyrirtækið tilkynnti um opnun nýju þjónustunnar kom fram að fyrirtækið hyggst koma á fót söluskrifstofu í New York, en þangað munu höfuðstöðvarnar jafnframt flytjast með tíð og tíma.
„Við höfum verið svo lánsöm að þeir hluthafar sem standa að félaginu hafa lagt til um 850 milljónir króna í hlutafé. Hluthafarnir eru allir íslenskir,“ segir Hilmar.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .