Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi sölumeðferð ríkissjóðs á eignarhlut í Íslandsbanka í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Bjarni sagðist vilja fá Ríkisendurskoðun til að taka út framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkissjóðs á 22,5% hlut í bankanum sem fór fram fyrir tveimur vikum vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið. Þá sagðist hann hlynntur því að afhenta landsmönnum hlut í Íslandsbanka en að ekki hafi verið samhljómur um þá aðgerð innan ríkisstjórnarinnar.

„Sú leið að afhenda Íslendingum eignarhlut í ríkisbanka er nokkuð sem ég lengi talað fyrir. Ég hef ekki náð samstöðu um það með öðrum samstarfsflokkum eða öðrum á þinginu til þess að hrinda því í framkvæmd,“ sagði Bjarni í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Guðmundssonar, formanni Miðflokksins. Hann bætti einnig við að hann teldi vel koma til greina að ráðast aftur í almennt útboð á síðari stigum söluferlisins.

Sjá einnig: Allir kaupendur í útboði Íslandsbanka

Bjarni sagði að hugmyndin um af afhenda landsmönnum hlut í bankanum hafi verið rædd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma og nánar í aðdraganda kosninga. Þetta hafi þó ekki verið úrslitaatriði við stjórnarmyndun í haust.

Hann sagðist þó vera sáttur með að fyrst hafi verið ráðist í almennt útboð og skráningu þar sem bankinn fékk gott verðmat á markaði. Bjarni benti á að ríkið hafi fengið Íslandsbanka í hendurnar án endurgjalds á sínum tíma og að nú sé bankinn metinn á meira en 250 milljarða. Ríkið hafi þegar selt 57,5% hlut í bankanum fyrir yfir hundrað milljarða og fari enn með eignarhlut sem er metinn á meira en hundrað milljarða auk þess að hafa fengið tugi milljarða í arð á síðustu árum.

„Í ljósi þess hversu mikið virði bankans hefur hækkað í höndunum ríkisins, þó ekki nema bara frá almenna útboðinu þegar bankinn var metinn í kringum 150 milljarða en núna yfir 250 milljarða, að við ráðstöfum hluta ávinningsins af hækkun á markaðsvirði bankans beint til Íslendinga,“ sagði Bjarni í morgun. Hann sagði þó að slík ráðstöfun krefðist nánari umfjöllun á þinginu.

Sigmundur Davíð kvaðst sáttur með svar Bjarna og bætti við að hann vildi ekki koma „hæstvirtum ráðherra í nein frekari vandræði hjá samstarfsfólki sínu í ríkisstjórn“.