Í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra eru gerð drög að breyttu lagaverki um þjóðaröryggi. Tillagan verður rædd á fundi utanríkismálanefndar fyrir hádegi í dag. Hana má lesa í heild sinni hér .

Í tillögunni er til að mynda snert á því að sett verði á laggirnar með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð, sem metur ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglulegum hætti. Þá myndi öryggisráðið einnig hafa eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnu og endurskoða hana á fimm ára fresti.

Fram kemur að gert sé ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga 2016 að framlög til öryggismála verði aukin um einhverjar 213 milljónir króna vegna þróunar í öryggismálum Evrópu.

Setja umhverfisvá og netógnir í forgang

Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu skilaði af sér skýrslu með tillögum sem þingsályktunartillagan tekur mið af. Tillagan skiptir hættunum sem steðja að Íslandi upp í þrjá flokka.

Flokkur 1. Hættur sem ber að setja í forgang með hliðsjón af viðbúnaði og fjármunum:

  • Um­hverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum.
  • Netógnir og skemmdarverk á innviðum samfélagsins.
  • Náttúruhamfarir.

Flokkur 2. Ógnir sem þarfnast fullrar athygli:

  • Skipulögð glæpastarfsemi.
  • Fjármála- og efnahagsöryggi.
  • Fæðu- og matvælaöryggi.
  • Heilbrigðisöryggi og farsóttir.
  • Hryðjuverk.

Flokkur 3. Hættur sem ólíklegt er að steðji að Íslandi en mundu vega að fullveldi og sjálfstæði landsins:

  • Hernaðarógn.

Þess ber að geta að í skýrslu nefndarinnar, sem er skráð sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni, eru hryðjuverk sett í 3. flokk ásamt hernaðarógn. Hryðjuverk hafa því færst upp um einn flokk. Þetta er gert í samræmi við mat ríkislögreglustjóra sem gefið var út þann 20. febrúar 2015.