Hagnaður Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum dróst saman um 30% á milli áranna 2017 og 2016 að því er kemur fram í frétt á vef fyrirtækisins. Árið 2017 var hagnaðurinn 8,7 milljónir evra eða sem nemur 1.049 milljón króna miðað við meðalgengi ársins 2017. Aftur á móti var hagnaður ársins 2016 12,5 milljónir evra eða sem nemur 1.670 milljónum króna á meðalgengi þess árs.

Þá minnkaði framlegð samstæðunnar jafnframt um 23% frá fyrra ári. Hún var 15,6 milljónir evra árið 2017 en 20,4 milljónir evra árið 2016.

Heildarskuldir og skuldbindingar jukust um 29% en að því er segir á vef Vinnslustöðvarinnar kom það til vegna fjárfestinga á varanlegum rekstrarfjármunum, kaupa á Útgerðarfélaginu Glófaxa og hækkunar handbærs fjár. Eiginfjárhlutfall var 32% í lok áes 2017 og lækkaði um 1 prósentustig milli ára.

Þá segir einnig að á aðalfundi félagsins hafi verið samþykkt að greiða 8 milljónir evra í arð eða sem jafngildir 968 milljónum króna. Um er að ræða fimmta árið í röð sem hluthafar Vinnslustöðvarinnar ákveða arðgreiðslu upp á 8 milljónir evra.

Ekki allir stjórnarmenn samþykktu ársreikning félagsins en Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim, stjórnarmaður í Vinnslustöðinni og eigandi tæplega þriðjungs hlutafjár, greiddi atkvæði gegn reikningnum. Að því er kemur fram var það sökum þess að honum bárust ekki skrifleg svör frá endurskoðendum félagsins um mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu þess.