Hugmyndin er að taka lífrænan massa, á borð við tað, matarúrgang eða hamp, og breyta honum í kol. Þau er síðan hægt að nýta á hefðbundinn hátt eða sem áburð fyrir bændur,“ segir Ársæll Markússon, eigandi 1000 ára sveitaþorps, sem stendur að verkefninu. Hugmyndin, sem hefur hlotið nafnið KindaKol, er eitt sex verkefna í Startup Orkídeu á vegum Icelandic Startup.

Öll sem hafa alist upp eða komist í vist í sveit þekkja þann unað að stinga út, böðla stungurekunni í gegnum taðið, koma misþungum kögglunum fyrir á gafli, ganga endilanga króna og fleygja molanum upp á sturtuvagn eða í skítadreifara. Það er áður en tæknin, grindur og liðléttingar, eyðilögðu erfiðið. Taðið hefur öldum saman verið nýtt ýmist sem áburður eða eldsmatur og sprettur hugmyndin að vissu leyti upp úr þeim jarðvegi.

Flýta árþúsunda ferli

„Maðurinn hefur grafið upp kol og brennt þau um árabil. Til að kol myndist þarf til lífrænan massa, þrýsting og ákveðið hitastig. Þetta er ferli sem tekur árþúsundir úti í náttúrunni og það sem við gerum er í raun að einfalda og flýta ferlinu,“ segir Ársæll.

Það fer mjög eftir massanum hverju sinni hve langan tíma umbreytingin frá úrgangi til kola tekur. Ef við höldum okkur áfram í taðinu þýðir þurrt og þétt tað að ferlið tæki um átta klukkustandir. Blaut spörð gætu aftur á móti allt að þrefaldað tímalengdina.

„Þetta er nokkuð misjafnt og er í þróun já okkur. Við erum staðsett í Þykkvabænum og notumst við hita og orku frá hverum. Hitastigið á vatninu sem kemur hér upp er afskaplega gott fyrir þessa vinnslu,“ segir Ársæll.

Meðal þess sem fellur til við vinnsluna er afurð sem gengið hefur undir nafninu „viðaredik“ þótt strangt til tekið sé þar um nýyrði í íslenskri tungu að ræða. Það hafi hingað til gefið góða raun sem næring fyrir plöntur.

„Við erum því í raun með tvær afurðir sem hægt er að nýta sem áburð. Bændur geta komið með úrgang til okkar, við unnið hann í kol sem síðan er hægt að bera á tún en kolin eru góð fyrir jarðveginn og binda ýmis efni í honum. Með því móti þarf að flytja minna inn af áburði. Hinn nýtingarmöguleikinn er að nýta kolin til hefðbundinnar brennslu og þar höfum við verið að horfa til stóriðjunnar. Að þeim standi til boða umhverfisvænn og sjálfbær kostur sem hefur ekki verið fluttur yfir hálfan hnöttinn,“ segir Ársæll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .