Jón Ólafsson segir að að vatnsævintýrið með Icelandic Glacial verði hans síðasta stóra verkefni þar sem hann verður sjálfur við stjórnvölinn en hann verður 67 ára á þessu ári

Upphafið að vatnsverkefninu er eins og margt í lífi Jóns í senn tilviljanakennt og hálf ævintýralegt. Kristján, sonur Jóns, keypti vatnsverksmiðju úr þrotabúi hér á landi fyrir fjárfesti frá Sádí-Arabíu sem greiddi svo aldrei fyrir verksmiðjuna og feðgarnir sátu því uppi með hana.

Fékk nóg af átökunum á Íslandi

Ljósmynd ársins 2003 var tekin á Reykjavíkurflugvelli þegar Jón steig út úr einkaflugvél með símann við eyrað til að selja hlut sinn í Norðurljósum. Þá var hann í senn einn umdeildasti og umtalaðasti viðskiptamaður landsins. „Þetta var orðið gott,“ rifjar Jón upp um slaginn um Norðurljós. „Þetta var afskaplega lýjandi og mig langaði að fá að spila á stærri leikvelli. Á Íslandi ertu svo áberandi og það hafa allir skoðun á þér hvort sem þeir þekkja þig eða ekki. Það sem ég er að gera í dag hentar mér miklu betur.“

Sjá einnig: Lagt allt sparifé í vatnið

Því fór að Jón helti sér sjálfur út í að byggja upp vatnsframleiðsluna með syni sínum. „Ég var búinn að selja Norðurljós og hafði ekkert að gera og vaknaði á hverjum morgni án tilgangs í lífinu. Að lokum ákvað ég að fara í vatnið, sem var nú helst gert til að bjarga geðheilsunni í upphafi,“ segir Jón.

Davíð „fylgdi mér eins og skuggi“

Jón lent ekki síst upp á kant við Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra. „Hann fylgdi mér eins og skuggi.“ Þegar tilkynnt var um söluna á Norðurljósum sagði Davíð að hann liti svo á að salan hefði yfirbragð þess að verið væri að versla með þýfi. Jón fór í meiðyrðamál við Davíð vegna ummælanna og vann. Jón var meðal annars hluti af Orca hópnum svokallaða sem keypti 26% hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins árið 1999 við mikla óánægju Davíðs. Jón segir ástæðuna fyrir óvild Davíðs í sinn garð fyrst og fremst hafa verið að hann hafi ekki verið nógu hlýðinn. „Það er engin önnur skýring.“

Það hafi byrjað þegar Davíð vildi ráða því hver yrði sjónvarpsstjóri yfir Stöð 2. En Jón var þegar búinn að ráða annan í starfið. „Ég gat ekki svikið það. Fyrir utan að ég var búinn að ráða sjálfstæðismann sem ég hélt að hann yrði ánægður með. En þegar ég horfi yfir farinn veg held ég að ég hafi valið rétt,“ segir Jón.

Sjá einnig: Amma benti á bjargvættinn

„Ég var harður sjálfstæðismaður. Davíð var hetjan mín. Í fyrstu prófkjörunum hans voru skrifstofurnar mínar og símarnir mínir notaðir. Ég misst trú á honum þegar hann fór á móti Þorsteini Pálssyni sem formaður árið 1991. Mér fannst hann ekki gera það með réttum hætti.“

En hvaða tilfinningar ber Jón til Davíðs í dag? „Ég vorkenni honum. Hann var ótrúlega snjall og skemmtilegur. Svo fóru hlutirnir að breytast. Á tímabili var hægt að sjá fyrir sér að Davíð Oddsson yrði vinsælasti íslenski forsætisráðherrann frá upphafi en svo varð hrokinn yfirsterkari.“

Ítarlegt viðtal við Jón Ólafsson birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .