Erfiðlega hefur gengið að endurreisa flugfélagið Wow sem Michele Roosevelt Edwards festi kaup í byrjun mánaðarins. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns á vefnum turisti.is hefur flugfélagið hvorki sótt um lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli né Dulles flugvallar við Washington borg í Bandaríkjunum. Vísað er í skriflegt svar blaðafulltrúa flugmálayfirvalda í Washington borg að engar nýjar upplýsingar hefðu borist um Wow air og stöðu þess.

Michele Roosevelt Edwards tilkynnti á blaðamannafundi fyrir þremur vikum að jómfrúarferð hins endurreista Wow yrði farin í byrjun október frá Dulles-flugvelli í Washington hingað til Íslands. Heimildir Morgunblaðsins herma hins vegar að þessi áform munu ekki ganga eftir.

Eitt af því sem hefur tafið endurreisnina skv. heimildum Morgunblaðsins er að illa hafi gengið að fá eignir úr þrotabúinu afhentar í nothæfu ástandi. Til að mynda hafi lén félagsins wow.is og wowair.com ekki enn fengist afhent. Meðal þeirra eigna sem Edwards greiddi 50 milljónir króna fyrir eru fjólubláu búningarnir, varahlutir, bókunartæki og hand­bæk­ur.

Að öðru leiti gangi undirbúningur vel. Vinna við fyrr­nefnda bók­un­ar­vél og vef sé unn­in mest hér á landi en í Banda­ríkj­un­um sé unnið að öll­um flugrekstr­ar­leg­um þátt­um. Þá herma heimildir Moggans að félagið sem haldi á flugrekstrarleyfi Wow sé bandarískt og sótt verði um flugrekstrarleyfi hér á landi um leið og starfsemin verði komin í fullan gang.