Seðlabanki Íslands veitti í dag indó leyfi til að starfa sem sparisjóður. Þetta kemur fram í tilkynningu. indó tryggði sér tæplega 600 milljóna króna fjármögnun síðastliðið haust og var það hluti af lokaskrefunum til að fá tryggja samþykki á starfsleyfisumsókn indó.

Nú taka við nokkrir mánuðir þar sem indó mun leggja lokahönd á samþættingu sinna tölvukerfa við kerfisinnviði Seðlabankans, að því loknu mun sparisjóðurinn veita öllum landsmönnum aðgang að þjónustu sinni, að því er kemur fram í tilkynningu.

Sjá einnig: Styttist í nýbankann indó

Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason stofnuðu Indó haustið 2018, en báðir hafa þeir áralanga reynslu af fjármálamarkaði. Indó er nýbanki sem ætlar að bjóða innlánaþjónustu í gegnum app. indó er fyrsti áskorendabankinn á Íslandi en áskorendabankar hafa orðið gríðarlega vinsælir erlendis á síðustu árum. Til að byrja með mun indó eingöngu að bjóða upp á debetkortareikning en með tímanum verður bætt við vöruframboðið í samstarfi við þriðju aðila.

Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri indó:

„Þetta er búið að vera með eindæmum skemmtilegt og gefandi ferðalag undanfarin 3 ár og ef horft er til baka var það í raun galin hugmynd að láta sér detta í hug að stofan nýjan banka frá grunni. Ég að rifna úr stolti yfir teyminu sem hefur unnið hörðum höndum að því að komast á þennan stað og ég bý við þau einstöku forréttindi að vinna með hópi fólks sem hvert um sig er í heimsklassa á sínu sviði, að öðrum kosti hefðum við aldrei komist þangað sem við erum komin í dag.“