Oddur Ástráðsson lögmaður flugrekstrarfélagsins ALC, eigenda þotu Wow air, sem Isavia hefur kyrrsett frá gjaldþroti flugfélagsins, býst við að henni verði flogið frá Keflavík strax á morgun eða laugardag að því er RÚV greinir frá.

Eins og sagt var frá í fréttum í gær úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness ALC í hag og sagði félagið eingöngu eiga að greiða þær skuldir við Isavia sem hvíldu á þeirri tilteknu þotu félagsins gagnvart stofnuninni.

Isavia hins vegar furðar sig á úrskurðinum enda hafði stofnunin kyrrsett vélina fyrir öllum skuldum hins gjaldþrota Wow air félags gagnvart henni. Sagði stofnunin jafnframt mjög ámælisvert að frestun réttaráhrifa, það er að ALC fái vélina strax afhenta, hefði verið hafnað, enda takmarki það möguleika stofnunarinnar til að fá úr málinu skorið á æðra dómstigi.

Mótmæla og vilja halda vélinni fram að úrskurði Landsréttar

Í morgun óskuðu lögmenn ALC hins vegar eftir því að Sýslumannsembættið á Suðurnesjum greiddi götu félagsins gagnvart stofnuninni, sem varð við því að framfylgja úrskurði héraðsdóms og skoraði á Isavia að láta af öllum aðgerðum til að halda vélinni.

Lögmaður Isavia sem einnig var hjá sýslumannsembættinu í morgun lét bóka mótmæli stofnunarinnar, enda hafi Isavia kært úrskurðinn til Landsréttar auk þess að fara fram á að réttaráhrifunum verði frestað.

En þar sem Sýslumaður tók þá afstöðu að afhenda beri vélina hafa þau skilaboð verið send til starfsmanna flugvallarins að vinnutæki og annar búnaður sem komið hafði verið fyrir í kringum Airbus vélina umræddu verði fjarlægður svo flugvirkjar ALC geti fært hana inn í flugskýli til yfirferðar og prófana.

Lögmaður ALC, fyrrnefndur Oddur, telur því næsta víst að vélin verði farin úr íslenskri lögsögu áður en Landsréttur taki afstöðu til málsins.