Nýtt kaupréttarkerfi Icelandair va samþykkt með ríflega helmingi atkvæða á rafrænum aðalfundi félagsins í dag. Eigendur 44% hlutar í félaginu mættu á fundinn.

Fyrirhugað er að gefa út allt að 250 milljónir hluti í ár og 900 milljónir hluta á þriggja ára tímabili fyrir kaupréttarkerfið. Endanlegur fjöldi útgefna hluta mun velta á frammistöðu félagsins.

Kaupréttirnir miðast við gengi félagsins við veitingu kaupréttanna að viðbættum 3% árlegum vöxtum. Hægt verður að innleysa kaupréttina að þremur árum liðnum en skilyrði er að kaupréttarhafar séu enn við störf hjá Icelandair.

Gengi bréfa Icelandair er nú í 1,91 krónu á hlut. Miðað við það er virði kaupréttanna í ár að hámarki hátt í hálfur milljarður króna en um 1,7 miljarðar króna á þriggja ára tímabili.

Þá var einnig samþykkt hvatakerfi sem felur í sér bónusgreiðslur fyrir lykilstarfsmenn sem geta numið 25% árslauna.

Gildi lífeyrissjóður var andsnúinn kaupréttarkerfinu. Gildi taldi kjarabæturnar of umfangsmiklar en lífeyrissjóðurinn á ríflega 3% hlut í Icelandair.