Vladimír Pútín, forseti Rússlands viðurkenndi sjálfstæði héraðanna Luhansk og Donetsk í Úkraínu í gær, þar sem aðskilnaðarsinnar ráða ríkjum. Hann sendi friðargæsluliða á svæðin, en óttast er að Rússar muni gera innrás í Úkraínu. Að sögn Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, hafa Rússar nú þegar hafið innrás með því að senda hermenn og skriðdreka inn í landið.

Alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir voru rauðir við opnun í morgun. S&P vísitalan hefur lækkað um 0,72% frá opnun markaða og Dow Jones um 0,68%. Nikkei 225-vísitalan hefur lækkað um 1,7% frá opnun markaða. Kauphöllin á Íslandi er engin undantekning, en OMXI10 vísitalan hefur lækkað um 0,48% í dag og hefur vísitalan nú lækkað um tæp 5% á árinu. Flest félög á aðalmarkaði hafa lækkað um 1-2% í dag, en gengi bankanna á markaði hefur lækkað í kringum 0,8%. Reitir fasteignafélag hefur lækkað mest allra félaga, um 2,6%.

Sjá einnig: Olíuverð fari upp í 125 dali

Hráolíuverð heldur áfram að hækka. WTI hráolían er komin upp í 94,5 dali á tunnu og hefur hækkað um 3,7% síðan í gær. Brent hráolían er komin upp í rúma 98 dali á tunnu og hefur hækkað um rúm 2,8% síðan í gær.

Rússland er næst stærsta olíutflutningaríki heims, og stærsti jarðgasframleiðandi í heimi. Hin mikla spenna á landamærum Rússlands og Úkraínu hefur þannig mikil áhrif á hráolíuverð. Andy Lipow, hjá Lipow Oil Associates , segir í samtali við CNBC að hráolíuverð gæti farið upp í 110 dali á tunnu ef viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússa þannig að þeir geti ekki flutt olíu til Evrópu. Þess má geta að Rússar sjá Evrópu fyrir um þremur milljónum olíutunna á dag, mest allra ríkja.

Talið er að utanríkisráðherrar Evrópusambandsins tilkynni viðskiptaþvinganir á hendur Rússa síðar í dag. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur nú þegar sett Nord Stream 2 verkefnið á ís, en um er að ræða gasleiðslu sem á að auka verulega gasúflutning til Þýskalands og annarra Evrópuríkja. Verkefnið hefur verið fimm ár í byggingu og kostað um 1.400 milljarða íslenskra króna. Jafnframt er talið nær öruggt að Bandaríkjastjórn muni beita viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum.

Greiningaraðilar segja að hráolíuverð gæti farið upp í 125 dali á tunnu á næstu misserum og segja sumir sérfræðingar að tunnan fari upp í 150 dali. Fyrir utan spennuna á landamærum Rússlands og Úkraínu hafa framleiðslutruflanir í Bandaríkjunum vegna hríðarbyls stuðlað að hækkunum á hráolíuverði.