Það hefur verið rautt yfir mörkuðum það sem af er degi en úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur þegar þetta er skrifað lækkað um 1,77% í 914 milljóna króna viðskiptum. Mest hefur lækkunin verið á gengi bréfa Marel sem hafa lækkað um 2,43% í tæplega 340 milljóna króna viðskipum en bréf félagsins í Amsterdam hafa einnig lækkað um 1,2% það sem af er degi.

Þá hefur gengi bréfa VÍS lækkað um 1,83% í 37 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf Arion banka hafa lækkað um 1,8% í 81 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf bankans í Svíþjóð hafa lækkað um 2,2% það sem af er degi.

Lækkanir víða um heim

Sömu sögu er að segja af mörkuðum í Evrópu en Euro Stoxx 50 vísitalan hefur lækkað um 1,25% það sem af er degi og hefur nú lækkað um 7,25% á síðasta mánuði. Þá hefur FTSE 100 vísitalan í London lækkað um 1,53% það sem af er degi og þýska DAX vísitalan um 1,68% en lækkun hennar nemur nú tæplega 9% á síðustu 30 dögum.

Þá hefur franska CAC 40 vísitalan lækkað um 1,34% og IBEX 35 á Spáni um 1,17% og nemur mánaðarlækkunin þar í landi nú tæpum 10%. Sömu sögu er að segja af mörkuðum á Norðurlöndunum. OMX Nordic 40 vísitalan hefur lækkað um 0,9% það sem af er degi.

Þess má einnig geta að hlutabréf Össurar í Kaupmannahöfn hafa lækkað um 2,1% það sem af er degi og hafa nú lækkað um ríflega 5% á síðustu tveimur dögum eftir töluverðar hækkanir það sem af er ári. Í Asíu lækkaði Nikkei 225 vísitalan í Tókýó um 1,21% í nótt en þó hækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 0,76% auk þess sem CSI 300 vísitalan í Shanghai hækkaði um 0,31%.

Slakar hagvaxtatölur og niðurhallandi vaxtaferill ríkisskuldabréfa

Segja má að lækkanir á hlutabréfamörkuðum um allan heim megi að mörgu leyti rekja til þess að fjárfestar hafa áhyggjur af horfum í heimshagkerfinu. Bæði Þýskaland og Kína hafa á síðustu dögum birt slakar hagvaxtatölur auk þess sem vaxtaferill bandarískra ríkisskuldabréfa varð niðurhallandi í gær þegar ávöxtunarkrafa 10 ára bréfa fór undir ávöxtunarkröfu 2 ára bréfa en sá atburður hefur verið undanfari síðustu fimm samdráttarskeiða (e. recession) þar í landi.

Þá hafa fréttir um tollaaðgerðir kínverskra stjórnvalda gangvart Bandaríkjunum valdið fjárfestum áhyggjum en óhætt er að segja að viðskiptastríð landanna tveggja hafi litað markaði á síðustu misserum. Þá voru einnig töluverðar lækkanir á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær en S&P 500 vísitalan lækkaði um 2,93%, Dow Jones um 3,05% og Nasdaq vísitalan um 3,02%.