Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um að ætla að banna olíuleit í íslenskri lögsögu.

„Við þurfum að gera ráðstafanir til að bregðast við breyttri heimsmynd. Vesturlönd sem hafa á margan hátt verið í hnignunarferli þurfa að taka sér tak á ýmsum sviðum, m.a. til að geta stutt við Úkraínumenn og aðra. Um allan hinn vestræna heim er nú rætt um aðkallandi þörf fyrir aukna orkuframleiðslu," segir Sigmundur Davíð í færslu á Facebook.

Hann bendir á það lúxusvandamál sem Norðmenn standi frammi fyrri að tekjur ríkissjóðs Noregs aukist eftir hækkunar olíuverðs eftir að stríðið hófst í Úkraínu.

„Meira að segja sé Elon Musk, forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, að tala fyrir aukinni olíu- og gasvinnslu á Vesturlöndum.“ Á sama tíma liggi fyrir frumvarp um að banna rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi í íslenskri lögsögu. „Um leið gáfu Norðmenn út 53 ný leyfi til leitar og vinnslu í sinni lögsögu," bendir Sigmundur Davíð á.

Sjá einnig: Efast um hagkvæmni olíuleitar

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar og fyrrverandi stjórnarformaður Eykon Energy sem stóð að olíuleit á Drekasvæðinu gagnrýndi frumvarpið nýlega í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta er ótrúlega sérkennilegt frumvarp vegna þess að við sem nyrsta höfuðborg heims, eyja á hjara veraldar, værum ekki neitt án olíu í dag. Það væru engir flutningar til og frá landinu, og flutningar eru undirstaða viðskipta, sem eru undirstaða velmegunar, þannig að ég skil ekki hvernig það gagnast Íslendingum að nýta ekki olíumöguleika ef þeir eru til staðar," sagði Heiðar.