Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem að söluferli Íslandsbanka í lok mars komu segja allt tal um að aðeins útvaldir hafi fengið símtal með boði um þátttöku og þannig fengið tækifæri til að hagnast sem öðrum fagfjárfestum hafi ekki boðist fásinnu.

Birt hafi verið Kauphallartilkynning strax við lokun markaða á söludeginum þar sem umsjónarmenn og söluaðilar voru tilgreindir, og allir fagfjárfestar hafi getað haft samband og skilað tilboði.

Mikill fréttaflutningur hafi verið af söluferlinu og fyrirkomulagi þess, og þótt nákvæm dagsetning hafi af ásettu ráði og augljósum ástæðum ekki verið gefin út fyrirfram, hafi allir sem fylgist með fjármálamörkuðum vitað hvað í vændum var.

Þess fyrir utan hafi sjö söluráðgjafar í ólíkum hlutverkum komið að ferlinu, sem á eins litlum markaði og þeim íslenska eigi að geta haft samband við þorra virkra fagfjárfesta á einni kvöldstund.

Fram hefur komið að af þeim 221 tilboðsgjöfum sem ekki fengu úthlutun hafi allir nema tveir einfaldlega boðið lægra verð en endanlegt viðmiðunargengi, 117 krónur á hlut. Fjármálaráðuneytið birti á dögunum lista yfir alla einkafjárfesta og hversu miklu þeir fengu úthlutað.

Venjan er sú að seljandi – í þessu tilfelli Bankasýslan fyrir hönd ríkisins – ákveður hlutfallslega úthlutun til hvers fjárfestahóps (stofnanafjárfesta, einkafjárfesta og svo framvegis). Innan hvers hóps eru síðan öll tilboð skert um sama hlutfall þannig að heildarúthlutun hópsins verði sú sem ákveðið hefur verið. Seljandi á þó alltaf lokaorðið og hefur strangt til tekið frjálsar hendur til að ákvarða hvaða úthlutun sem honum sýnist, og tilboðsbók útboðsins hefur ekki verið birt opinberlega.

Þreifingin skjalfest í fyrsta sinn
Útboðið var það fyrsta sem haldið var hér á landi eftir að reglugerð ESB um markaðssvik (e. Market abuse regulation) var innleidd, sem formfesti meðal annars hið svokallaða markaðsþreifingarferli sem á sér stað fyrir söluferlið sjálft, og gerði kröfu um að öll samskipti við markaðsaðila séu skjalfest.

Þannig á að vera hægt að rekja dreifingu innherjaupplýsinga í kringum ferlið, en fyrir gildistöku reglnanna segja viðmælendur ferlið að einhverju leyti hafa verið „óskrifaðra blað“, og eftirlitsaðilar átt erfiðara með að rekja flæði innherjaupplýsinga.

Seldu strax vegna lítillar úthlutunar í fyrra
Þegar talið berst að þeim erlendu fjárfestum sem tóku þátt í frumútboðinu í fyrra en seldu síðan strax og þeir fengu þau í hendurnar – sem stjórnvöld og útboðsaðilar hafa verið gagnrýnd þónokkuð fyrir – segir einn af viðmælendum blaðsins ofureinfalda skýringu á því. Þeir hafi einfaldlega fengið svo miklu minna úthlutað en þeir sóttust eftir að flestum þeirra hafi ekki þótt taka því að eiga svo lítinn hlut áfram, og því selt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .