Markaðsaðilar sem Seðlabanki Íslands leitaði til vænta þess nú að verðbólga verði að meðaltali 7% á bæði öðrum og þriðja ársfjórðungi en til samanburðar þá mældist verðbólgan 6,7% í mars. Þeir telja að verðbólga verði 5% að ári liðnu en í könnun sem framkvæmd var í janúar voru væntingar um að verðbólga yrði 3,8% að ári liðnu. Seðlabankinn kannaði væntingar 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði á dögunum 19.-22. apríl en svör fengust frá 24 aðilum.

Verðbólguvæntingar til tveggja og fimm ára hafa jafnframt hækkað frá síðustu könnun og mælast 3,5%. Þá hækka einnig verðbólguvæntingar til tíu ára og mælast 3%.

Sjá einnig: Fjárfestar að missa trúna

Miðað við miðgildi svara í könnunni gera markaðsaðilar ráð fyrir því að stýrivextir hækki úr 2,75% í 3,75% á yfirstandandi fjórðungi og að þeir hækki um 0,5 prósentur til viðbótar á þriðja fjórðungi og verði þá komnir í 4,25%. Þá vænta markaðsaðilar að vextir veðri komnir í 4,6% eftir eitt ár og verði nær óbreyttir að tveimur árum liðnum. Í tilkynningu Seðlabankans segir að þetta séu hærri vextir en markaðsaðilar áttu von á í janúar.

Líkt og í janúar þá telja langflestir á markaðnum að taumhald peningastefnunnar sé of laust eða um 79% svarenda en hlutfallið var 76% í janúar. Einnig fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt og er hlutfall þeirra tæplega 17% samanborið við 20% í síðustu könnun. Rúmlega 4% svarenda í könnuninni eru þeirrar skoðunar að taumhaldið sé of þétt.

Fram kemur að dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var meiri en í síðustu könnun á alla mælikvarða. Jafnframt var dreifing svara um væntingar til vaxta „töluvert meiri“ þegar horft var til næstu fjórðunga.