Rétt fyrir lokun Kauphallarinnar fóru í gegn viðskipti með 20 milljónir hluti, eða sem nemur nærri 2,9% af heildarhlutafé flugfélagsins. Kaupgengið í viðskiptunum var 21,8 krónur á hlut og nam kaupverðið því 436 milljónum króna en alls var 579 milljóna velta með bréf félagsins sem hækkuðu um 1,4% í dag.

Play birti í gær ársuppgjör þar sem fram kom að tap félagsins í fyrra nam tæplega 2,9 milljörðum króna. Flugfélagið segist þó eiga von á að rekstrarhagnaði á síðari hluta næsta þessa árs. Á uppgjörsfundi Play í morgun kom fram að til stæði að fjölga sætum um borð en félagið áætlar að einingarkostnaður falli um 7% í A321 vélunum fyrir vikið.

Gengi Icelandair lækkaði um 3% í 106 milljóna veltu og nemur nú 1,78 krónum. Lækkunin kann að skýrast af því að verð á framvirkum samningum með hráolíu hafa hækkað töluvert í dag. Verð á Brent hráolíu hefur hækkað um 8% í dag og stendur nú í 106 Bandaríkjadölum á tunnu.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var mesta veltan með hlutabréf Eimskips sem hækkuðu um 2,3% í 723 milljóna viðskiptum. Gengi flutningafélagsins stendur nú í 550 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Hlutabréfaverð Eimskips lækkaði nokkuð eftir innrás Rússa í Úkraínu en dagslokagengi félagsins fór lægst niður í 480 krónur á þriðjudaginn í síðustu viku en hefur síðan hækkað um nærri 15%.