Hinn alræmdi Jordan Belfort, sem kvikmyndin „the Wolf of Wall Street“ byggir á, varar óreynda fjárfesta við því að þeir geti tapað öllu á GameStop.

BBC greinir frá því að Belfort, sem dæmdur var í fangelsi fyrir markaðsmisnotkun árið 1999, segi fjárfestingar af þessu tagi vera „frábærar“ í uppsveiflunni en „sársaukafullar“ á niðurleiðinni. Belfort segist skilja að GameStop heilli áhugafjárfesta sem vilja bjóða stóru fjármálafyrirtækjunum á Wall Street birginn. Þeir þurfi þó að fara gætilega, að lokum muni gengi bréfanna „hrynja aftur til jarðar“ og sömu sögu sé að segja um silfrið.

Þá segir Belfort að ef fólk ætli að byggja framfærslu sína á fjárfestingum af þessum toga, verði það að grípa hnífinn á lofti á niðurleiðinni, um leið og hann hvetur fólk til að ganga frá borði áður en skipið sekkur.

Gengi hlutabréfa í GameStop hefur áttfaldast undanfarnar vikur, eftir að Reddit-fjárfestar tókust á við Wall Street fjárfesta sem tekið höfðu skortstöðu í bréfum tölvuverslunarkeðjunnar. Reddit-fjárfestarnir höfðu betur í glímunni en stórir vogunarsjóðir neyddust til að loka stöðu sinni með miklu tapi.