Samkvæmt frétt á vef Þjóðskrár hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 20,3% á síðastliðnum 12 mánuðum, en greiningadeildir bankanna spá í kringum 6% ársverðbólgu í febrúar. Verðbólgan mældist 5,7% í janúar.

Hagstofa Íslands mun birta verðbólgumælingu fyrir febrúar í lok næstu viku. Bergþóra Baldursdóttir hjá Greiningu Íslandsbanka segir nýjustu tölur Þjóðskrár benda til þess að húsnæðisliðurinn gæti hækkað meira en bankinn gerði ráð fyrir í verðbólguspá sinni. „Það er líklegra að óvissan með spá okkar liggi upp á við og þá mælist meiri verðbólga fyrir vikið. Mælingar Þjóðskrár ná einungis til höfuðborgarsvæðisins en Hagstofan reiknar þriggja mánaða meðaltal um allt landið, þannig við skulum bíða og sjá. Þetta getur þó gefið ákveðna mynd af því hvernig íbúðaverð mun þróast í reiknuðu húsaleigunni á næstu misserum."

Bergþóra segist vongóð um að hærri stýrivextir og hert greiðslubyrðarhlutfall muni róa markaðinn. „Það sem gerist fyrst er að eftirspurnin á íbúðamarkaði mun dvína vegna stýrivaxtahækkana og aðgerða Seðlabankans. Þegar framboðið tekur við sér kemur vonandi eitthvað jafnvægi á markaðnum fljótlega á næsta ári, en miðað við tölur Samtaka Iðnaðarins er töluverð aukning á íbúðum í fyrstu byggingarstigum og við heyrum að geirinn er að taka við sér."

Hún segir erfitt að segja hvenær stýrivextirnir fari að bíta á eftirspurnina á íbúðamarkaði. „Seðlabankinn byrjaði að hækka vexti um mitt síðasta ár og það hefur ekki enn farið að bíta. En vextirnir voru auðvitað orðnir mjög lágir," segir Bergþóra og bætir við að þegar vextirnir fara að bíta, muni það gerst hratt.