Hlutabréfaverð Vátryggingafélags Íslands, VÍS, hækkaði um 6,7% í viðskiptum dagsins. Alls var um 1,5 milljarða króna velta með bréf VÍS en 796 milljóna kaup SKEL á 2,5% hlut í vátrygginfélaginu gengu í gegn um níuleytið í morgun en fjárfestingafélagið hefur einnig gert framvirka samninga fyrir 4,8% hlut í VÍS. Gengi VÍS hækkaði við viðskiptin í morgun og tók svo 2% stökk eftir að flöggunartilkynning var birt um tvöleytið í dag.
Gengi Íslandsbanka lækkaði um 0,8% hlut í 1,4 milljarða veltu og endaði daginn í 125,4 krónum á hlut. Útlit er fyrir að SKEL hafi selt allan hlutinn í Íslandsbanka sem félagið fékk úthlutað í útboði Bankasýslunnar í síðasta mánuði fyrir 482,5 milljónir.
Sjá einnig: SKEL kaupir milljarða hlut í VÍS
Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 7,5 milljarða veltu á aðalmarkaðnum. Gengi Marels lækkaði mest allra félaga aðalmarkaðarins eða um 2% í 444 milljóna veltu og endaði daginn undir 700 krónum á hlut í fyrsta sinn frá því í byrjun mars. Hlutabréf Icelandair lækkuðu eitt prósent í 86 milljóna veltu og gengi flugfélagsins stendur nú í 2,01 krónum á hlut.
Hlutabréfaverð Eimskips náði nýjum hæðum í 575 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar eftir 2,7% hækkun í 885 milljóna veltu. Gengi flutningafélagsins hefur nú hækkað um 17% frá áramótum.