Á sama tíma og vogunarsjóðir töpuðu gríðarlega á skortstöðu sinni í tölvuverslunarkeðjunni GameStop, hagnaðist einn þeirra gríðarlega á fjárfestingu sinni í sjóðnum eða um 700 milljónir dollara, sem samsvara um 91 milljarði íslenskra króna.

WSJ segir frá því hvernig Richard Mashaal og Brian Gonick, sem reka vogunarsjóðinn Senvest Management LLC, urðu varir við það að bréf GameStop fóru að tikka upp á við og hugsuðu með sér að hér gæti eitthvað verið að gerjast, þótt þeir hefðu ekki getað ímyndað sér hversu „rugluð" atburðarásin átti eftir að verða.

Áhugi Senvest á tölvuverslunarkeðjunni kviknaði fyrst í upphafi síðasta árs eftir kynningu forstjóra GameStop á fjárfestingaráðstefnu. Á þeim tíma ráðlögðu greinendur á Wall Street fjárfestum ýmist að halda bréfum sínum í GameStop eða selja þau, auk þess sem bréfin voru töluvert skortseld.

Eftir að Mahaal og Gonick urðu varir við áhuga aðgerðasinna á bréfum GameStop ákváðu þeir, að vel ígrunduðu máli, að hefja kaup á bréfum í tölvuverslunarkeðjunni og undir lok október á síðasta ári átti vogunarsjóðurinn 5% í GameStop.

Þeir veðjuðu á að bréfin myndu hækka ef leikjafyrirtækið héldi út þangað til næsta kynslóð leikjatölva kæmi út, með aukinni eftirspurn eftir leikjum og fylgihlutum. Þá sáu þeir tækifæri í aukinni áherslu á netleiki í framtíðinni.

Fjárfesting Senvest í GameStop er arðbærasta fjárfesting sjóðsins þegar horft er til hagnaðar samanborið við innri vexti fjárfestingarinnar (Internal rate of return), en sá mælikvarði tekur tímalengd fjárfestingarinnar með í reikninginn.

Sjá einnig: Bréf Gamestop fimmfaldast á 2 dögum og Vogunarsjóður tapaði 53% vegna Gamestop .