Úrvalsvísitalan hækkaði um rúmlega hálft prósent í 6,3 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán af tuttugu félögum aðalmarkaðarins voru græn í viðskiptum dagsins. Íslandsbanki var meðal þeirra en gengi bankans hækkaði um 2% og er nú komið í 129 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur ekki verið hærra frá skráningu í júní síðastliðnum.

Sjá mátti gengi Íslandsbanka hækka við tilkynningu um að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Næstu skref um söluna verða tilkynnt eftir að umsagnir fjárlaganefndar, efnahags- og viðskiptanefndar og Seðlabankans liggja fyrir en óskað var eftir að þær berast eigi síður en 2. mars næstkomandi.

Sjá einnig: Tímabært að selja Íslandsbanka að fullu

Einnig spilar inn í að Íslandsbanki skilaði ársuppgjöri eftir lokun markaða í gær . Gengi Íslandsbanka hefur nú hækkað um meira en 5% frá því á mánudaginn og 63% frá útboðsgenginu í hlutafjárútboði bankans í júní.

Það var hins vegar Kvika sem leiddi hækkanir en bankinn hækkaði um 3,2% í 660 milljóna veltu. Gengi Kviku hefur alls hækkað um 8,4% í vikunni og stendur nú í 25,8 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Kviku hafði fallið nokkuð frá því að hafa náð hæstu hæðum í 28,5 krónum á hlut um miðjan nóvember 2021 og var komið niður í 23,8 krónur í lok síðustu viku.

Auk Íslandsbanka skiluðu Sjóvá og Reginn ársuppgjörum eftir lokun markaða í gær. Gengi Sjóvá, sem hagnaðist um 9,6 milljarða á síðasta ári , hækkaði um 2% og er nú komið í 38,2 krónur. Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Regins hækkaði um 1,5% í 140 milljóna veltu og náði nýjum hæðum í 34,7 krónum á hlut.