Þrír stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópi Icelandair lögðust gegn tillögu um að koma á kaupréttarkerfi fyrir lykilstarfsmenn félagsins að því er Túristi greinir frá. Tillagan var þó samþykkt á aðalfundi félagsins í síðustu viku með um 65% greiddra atkvæða. Lífeyrissjóðirnir Gildi , Brú og LSR, sem samtals eiga um 10% hlut í Icelandair lögðust allir gegn tillögunni.

Með kaupréttarkefinu er fyrirhugað að gefa út að hámarki 250 milljónir hluta í ár og allt að 900 milljónir hluta á þriggja ára tímabili. Endanlegur fjöldi útgefna hluta mun velta á gengi og rekstri félagsins. Kaupréttirnir miðast við gengi hlutabréfa Icelandair við veitingu kaupréttanna að viðbættum 3% árlegum vöxtum. Hægt verður að innleysa kaupréttina að þremur árum liðnum en skilyrði er að kaupréttarhafar séu enn við störf hjá Icelandair.

Eftir talsverða lækkun á hlutabréfaverði Icelandair undanfarna daga er markaðsvirði kauprpéttarkerfisins nú um 1,4 milljarðar króna og þar af er þeir hlutir sem heimilt er að gefa út í ár tæplega 400 milljóna króna.

Þá var einnig samþykkt hvatakerfi þar sem heimilt er að greiða starfsmönnum allt að 25% af árslaunum í bónusgreiðslur.