BMW i7 xDrive 60 er nýkominn á markað og er hreinn rafbíll. Þetta er flaggskip fólksbílafota þýska lúxusbílaframleiðandans frá Bæjaralandi og mikil lúxuskerra. Það má alveg segja að BMW i7 sé bíll fyrir þjóðhöfðingja og forstjóra en það geta allir notið sín í þessari flotta lúxuskerru sem er unun að keyra.

BMW i7 er með löngu húddi og hárri axlarlínu. Baklýst grillið er stórt en þó minna en á iX til að mynda. LED ljósin eru mjó lína sem gefur sterkt yfirbragð alveg eins og á X7 jeppanum. Heildaryfirbragð bílsins er kraftmikið og fallegt. Afturhlutinn sömuleiðis með flott ljósin sem gefa honum voldugt lúkk aftan frá.

BMW i7 notar fimmtu kynslóð rafmótora BMW eins og iX bíllinn. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og byggður á CLAR undirvagninum. Rafmótorinn skilar 544 hestöflum og togið er 475 Nm. Það er því gríðarlegt afl í þessum lúxusbíl og það finnst um leið og ýtt er á bensíngjöfina.

Dregur allt að 625 km

Kerran þýtur af stað og er aðeins 4,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraði bílsins er 240 km/klst. Drægnin á rafmagninu er allt að 625 km samkvæmt WLTP staðlinum sem er mjög gott. BMW i7 er 5.391 mm að lengd og 1.950 mm að breidd sem sýnir hversu stór hann er. Farangursrýmið er 500 lítrar.

Aksturinn er silkimjúkur enda bíllinn með mjög góða loftpúðafjöðrun. Það er sérlega gaman að keyra þennan stóra bíl og hann liggur ótrúlega vel. Þetta er svolítið eins og að stýra þotu þótt ég viðurkenni að ég hafi aldrei gert það. En það næsta sem ég kemst því.

Bíllinn er með fjórhjólastýringu sem beygir afturhjól um allt að 3,5 gráður til að auka grip í beygjum á meiri hraða. Það kom í ljós hversu þægilegt það er þegar tekið er á honum í beygjum. Hægt er að velja um sjö akstursstillingar sem gefur manni alls kyns möguleika í akstrinum. Iconic hljóðstillingin er líka skemmtileg. BMW hyggst koma með öflugri M70 útgáfu af i7 síðar á árinu en sú verður alls 651 hestafl.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.