Bærinn er sérstaklega sjarmerandi og rólegur og liggur að laxveiðiánni Dee. Þar var lestarstöðin fyrir Balmoral kastalann fram til 1966. Glenmuick kirkjan gnæfir yfir bænum.Margt minnir á konungsfjölskylduna, þar á meðal Victoria and Albert Halls sem voru byggð til heiðurs drottningunni og prinsinum árið 1876.

Við fengum að kynnast bænum á dögunum þegar við prófuðum nýjan Toyota Land Cruiser og voru skosku hálöndin langt umfram væntingar, og voru þær þó töluverðar. Ballater er einstaklega vel til þess fallinn að eiga nætursetu þegar ferðast er um svæðið. Mikið af fallegum kastölum eru í næsta nágrenni, brugghúsum, fallegri náttúru og svo lengi mætti telja.

Hér skaltu búa

Mikið er af minni gististöðum í nágrenninu. Meðal annars á landi Balmoral kastalans. Dýrasti gististaðurinn er Hilton Grand Vacations Club Craigendarroch Suites Scotland. En nafnið eitt kemur í veg fyrir að nokkur maður gisti þar.

Gistihúsið Balmoral Arms

Balmoral Arms

Steinsnar frá miðbænum er gistihúsið Balmoral Arms. Það er fullkomið í ferðalagið vilji maður á annað borð lifa sig inn í staðhætti. Í anddyrinu á hótelinu var næstum allan tímann aldraður Skoti sem var algjörlega óskiljanlegur. Hann viðkunnlega bros og falleg tvítjakkafötin voru svo sjarmerandi að maður saknaði hans þegar hann var ekki á staðnum. Hvert erindi hans var, er óvíst. Herbergin er nýlega uppgerð, í minni kantinum en alveg hreint ágæt. Maturinn er þokkalegur en við verðum að hafa í huga að almennt er matur á Bretlandseyjum óætur utan Lundúna. Verðið á nóttina er í kringum 30 þúsund sem verður að teljast þokkalegt.

Þetta skaltu gera

Það er margt hægt að gera í þessum fallega bæ. Þeir sem heimsækja Ballater geta notið úrvals gistirýma, notalegra kaffihúsa og frábærra verslana. Ýmis ævintýri eru auk þess í boði utandyra í stórkostlegri náttúru.

The Balmoral Bar

The Balmoral Bar

The Balmoral Bar er einna besti barinn á svæðinu. Hann er snyrtilegur og starfsfólkið vingjarnlegt. Gott úrval er af bjórum af svæðinu og maturinn er ágætur. Það sem skiptir ekki síður máli að bæjarbúarnir sem sækja staðinn eru einkar elskulegir. Samkvæmt óvísindalegri skoðunarkönnun voru allir gestir staðarins hrifnari af Elísabetu heitinni annarri, en Karli þriðja konungi.

Lestastöðin í Ballater

Lestarstöðin sem konungsfjölskyldan notaði í heila öld til að komast í Balmoral kastalann er í bænum. Hún var opnuð árið 1866 og lokaði 1966. Síðar var stöðinni breytt í safn, kaffihús og minjaverslun. Húsið brann hins vegar árið 2015 og skemmdust margir merkir munir í brunanum. Það hefur hins vegar verið endurbyggt í upprunalegri mynd og er einkar laglegt hús.

Bærinn er sérstaklega sjarmerandi og rólegur

Balmoral kastalinn

Kastali konungsfjölskyldunnar er í tíu mínútna aksturfjarlægð frá Ballater. Hægt er að skoða hluta kastalans að innan en margir láta sér nægja að ganga að honum og virða hann fyrir sér. Það er tilkomumikil sjón. Ágætt kaffihús er steinsnar frá kastalanum og minjagripaverslun með allt frá regnhlífum til viskís merkt með skjaldarmerki kastalans