Fyrr á árinu lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með það að meginmarkmiði að efla erlenda fjárfestingu hér á landi, einkum í nýsköpun. Því er ætlað að einfalda regluverk þegar kemur að erlendri fjárfestingu með það fyrir augum að gera íslenskum fyrirtækjum auðveldara um vik að sækja fjármagn erlendis frá. Í frumvarpinu segir að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um mikilvægi þess að gera Ísland samkeppnishæft við önnur lönd um erlent fjármagn til þess að styðja við íslenskt atvinnulíf og þá einkum nýsköpunarfyrirtækin sem treysti á aðgang að lánsfé. Frumvarpið var að lokinni fyrstu umræðu á þingi sent til efnahags- og viðskiptanefndar.

Þá er í frumvarpinu lögð til breyting sem snýr að nýtingu á eftirstöðvum rekstrartapa. Í því segir að tímabært sé að taka það til endurskoðunar, einkum vegna neikvæðra áhrifa á erlenda fjárfestingu. „Ef ekkert er að gert er sá möguleiki fyrir hendi að Ísland dragist aftur úr öðrum ríkjum þegar kemur að erlendri fjárfestingu og nýsköpun. Efling nýsköpunar er stór liður í áformum stjórnvalda um stuðning við vaxtargetu hagkerfisins í því skyni að festa þessa nýju stoð efnahagslífsins enn betur í sessi,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Umrætt ákvæði gerir lögaðilum og sjálfstætt starfandi rekstraraðilum heimilt að draga frá tekjum sínum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu tíu ára á undan tekjuári. Í ákvæðinu er enn fremur að finna þann varnagla að ekki sé hægt að kaupa og selja uppsafnað skattalegt tap nema þar að baki liggi annar efnahagslegur tilgangur en sá að komast yfir tapið. Samkvæmt gildandi lögum hafa fyrirtæki því 10 ár til þess að mynda hagnað. Takist þeim ekki að mynda hagnað innan 10 ára þá fyrnist elsta tapið.

Í frumvarpinu er bent á að regla sem þessi geti verið óheppileg þegar um sé að ræða fjárfestingar með háum upphafskostnaði þar sem tíma taki að greiða upp lán og mynda tekjustofna. Því er lagt til að 10 ára tímamörkin verði felld brott. Það sé í samræmi við þá grunnreglu að skattur eigi almennt að reiknast af heildartekjum að frádregnum heildarútgjöldum á líftíma atvinnureksturs óháð einstökum uppgjörstímabilum á þeim líftíma. Slík breyting sé enn fremur í samræmi við reglur í nágrannalöndum okkar.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði