Eitt sinn barst það helst til tíðinda á Íslandi yfir hásumarið að gúrkuuppskeran bærist í verslanir í þéttbýli og von væri á nýjum kartöflum. Þeir dagar eru liðnir, og vafalaust finnst mörgum nóg um hversu skammt stórra högga er á milli í íslensku samfélagi þegar dagarnir eru hvað lengstir.

Þó svo að nægu hafi verið að taka á, bæði á innlendum og erlendum vettvangi, hafa fréttastofur landsins meiri áhuga á sumum málum en öðrum, eins og gengur og gerist. Horft úr fjarlægð hefur verið áberandi hversu mikinn áhuga fréttastofur Ríkisútvarpsins og Sýnar hafa haft á óvinsældum stjórnarandstöðunnar í sumar.

Fjölmargir fréttatímar hafa verið undirlagðir af umfjöllun um það sem virðist vera óþol almennings og stjórnarliða gagnvart stjórnarandstöðunni, og hefur hún verið knúin áfram af skoðanakönnunum sem staðfesta það sem liggur í hlutarins eðli: að minnihluti kjósenda fylgi stjórnarand stöðunni að málum.

Þessi fjölmiðlaumfjöllun hefur svo kallast á við fjölda aðsendra greina og annarra yfirlýsinga stjórnarliða í sumar um hversu hvimleitt það sé að stjórnarandstaða skuli vera til staðar á Alþingi.

Þessi málflutningur náði svo ákveðnu hámarki í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni síðastliðinn sunnudag þegar Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir hversu ömurleg stjórnarandstaðan væri hér á landi og velti upp af hverju hún gæti ekki verið meira eins og stjórnarandstaðan á norska þinginu – sem er þá allt öðruvísi og betri samkvæmt þessu.

***

Ágætt dæmi um ofangreindan fréttaflutning má finna í umfjöllun fréttastofu Sýnar frá 24. júlí síðastliðnum. Þar ræddi Erla Björg Gunnarsdóttir fréttastjóri við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor emeritus (ísl.: uppgjafaprófessor) í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um nýja skoðanakönnun sem sýndi mikið flug á fylgi Samfylkingarinnar og vænan stuðning við ríkisstjórnina, þótt stuðningur við Viðreisn væri mun dræmari og Flokkur fólksins í vondum málum.

Talið snerist þó að mestu um hversu stjórnarandstaðan væri ómöguleg, hversu litlu málþóf í ákveðnum málum hefði skilað og hversu ánægðir kjósendur væru með að Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, hefði beitt 71. grein þingskapa og bundið enda á umræðu um margföldun veiðigjalda og vísað málinu til atkvæðagreiðslu, þar sem það var samþykkt að lokum.

Í lok viðtalsins sagði Ólafur að það yrði fróðlegt að fylgjast með aðferðafræði stjórnarandstöðunnar á komandi þingvetri:

„Ætlar stjórnarandstaðan að beita áfram sömu taktík og á liðnum vetri með tafarleikj um og málþófi, eða hvort menn loksins sammælast um að láta þingstörfin ganga bara með eðlilegum og skaplegum hætti, eins og raunin er í öllum nágrannalöndum okkar?“

Í þessum orðum virðist felast sú hugsun að það sé bara stjórnarandstöðunni fyrir bestu að flækjast ekki fyrir meirihlutanum og helst segja sem minnst. Það endurspeglar sérstaka sýn á lýðræðið, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Þarna er ekkert minnst á þá staðreynd að þingstörfin í vor gengu meðal annars erfiðlega vegna þess að mörg af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin lagði fram voru meingölluð, í sumum tilfellum lögð alltof seint fram og vanræksla á samráði við umsagnaraðila nánast reglan. Er það ekki einmitt þakkarvert hlutverk stjórnarandstöðunnar að minnsta kosti að benda á slíka agnúa og helst freista þess að sníða helstu vankanta af slíkri hrákasmíð?

Rétt er að halda því til haga að sum af frumvörpum ríkisstjórnarinnar mættu mikilli andstöðu í þjóðfélaginu. Þannig lögðust lífeyrissjóðirnir alfarið gegn frumvarpi sem hefði bannað þeim að líta fram hjá örorkulífeyrisgreiðslum frá almannatryggingum. Frumvarpið var eitt þeirra mála sem ekki náðu fram að ganga á vorþingi, en lögfesting þess hefði valdið því að ellilífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða hefðu lækkað almennt á bilinu um 5-7,5%, mun meira í einhverjum tilvikum. Það þarf ekki gleraugu stjórnmálafræðings til að sjá að það yrði ekki vinsælt meðal elstu kjósenda þessa lands, sem jafnframt er sá aldurshópur sem duglegastur er að mæta á kjörstað.

Það sama gildir um furðufrumvarp Ingu Sælands félagsmálaráðherra um að tengja greiðslur almannatrygginga við launavísitöluna. Ef frumvarpið, sem væntanlega verður lagt aftur fram á haustþingi, verður að lögum mun það strax kosta ríkissjóð fjóra milljarða á þessu ári, og eins og fjármálaráðuneytið hefur bent á, yrði lögfesting þess atlaga að sjálfbærni ríkisfjármála.

Er það virkilega faglegt mat stjórnmálafræðinga og afdráttarlaus niðurstaða umfjöllunar ljósvakamiðla að það sé stjórnarandstöðunni hollast að segja sem minnst við slíkum málum þegar þau eru til þinglegrar meðferðar? Minna má á að Sigurjón Þórðarson, helsti hugmyndafræðingur Flokks fólksins, hvatti eindregið til þess að fyrrnefndu ákvæði þingskapa yrði beitt sem oftast, sem er lítið annað en fróm ósk um að stjórnarandstaðan fái ekki að tjá sig um þingmál í þingsölum og haldi sig helst heima.

Væri það ekki einnar messu virði hjá alvöru stjórnmálafræðingum að ræða berorðar óskir meirihlutans um að hann einn fái nokkru ráðið, hann einn fái að tala í þinginu og að hann fái möglunarlaust og óhindrað að koma öllum sínum gælumálum í gegn, jafn vel málum þar sem miklir persónulegir og fjárhagslegir hagsmunir sumra stjórnarþingmanna eru undir? Á hvaða leið er þingræðið með því eða vestræn lýðræðishefð?

***

Staða stjórnarandstöðunnar getur vel verið athyglisverð og fréttnæm, en hún er sjaldnast aðalatriðið, hvað þá eina málið. Hún hefur eins og orðið sjálft gefur til kynna það hlutverk að vera andstæð ríkisstjórninni.

Vinsældir stjórnarandstöð unnar almennt hafa hins vegar lítið að segja fyrr en nær dregur kosningum, og í einstökum málum sáralítið. Við blasir að nýlegar skoðanakannanir draga nær einvörðungu dám af veiðigjaldamálinu og þess hefur Samfylkingin og ríkisstjórnin í heild notið. Sem þá skýrir ef til vill hvers vegna ríkisstjórnin virðist ætla að endurtaka leikinn og gera Evrópusambandsaðild nú að málinu eina.

En þegar kemur að fylgismælingum eru stjórn og stjórnarandstaða ekki í sömu stöðu, það er vel þekkt hér á landi, rétt eins og í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Stjórnarandstaðan getur nefnilega orðið undir í ótal málum, sem kann að endurspeglast í skoðanakönnunum dagsins, án þess að það hafi nein langvarandi áhrif. Af því að almenningur þekkir stöðu hennar og hlutverk, veit að hún á að rífa kjaft og má vera ósamstíga, og dvelur ekki við það sem miður gekk, einmitt af því að það þarf svo mikið að ganga á til þess að þingmeirihlutann bresti.

Um stjórnarmeirihlutann gegnir öðru máli. Það er ætlast til þess að hann gangi í takt og það er sjálfstætt áfall í hvert sinn sem það gerist ekki. Þegar hann klúðrar málum, hvort sem er vegna rangra ákvarðana eða mistaka, reynsluleysis í þingstörfum eða oflætis, þá er það líka áfall, sem skrifast á einstaka stjórnarflokka eða stjórnarþingmenn en öll ríkisstjórnin geldur fyrir. Stóri munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu er að það fennir fljótt í hliðarspor stjórnarandstöðunnar af því að þau skipta ekki máli, en sigrarnir – fáir og smáir sem þeir kunna að vera – gleymast ekki af því þeir hafa áhrif.

Syndir stjórnarinnar safnast hins vegar upp, en aftur á móti njóta ríkisstjórnir yfirleitt ekki lengi þess sem vel er gert; kjósendur hafa tilhneigingu til þess að líta á það allt sem sjálfsagða hluti eftir á.

Þetta allt vita hlutlausir fræðimenn á sviði stjórn málafræði.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, þingfréttaritari Ríkisútvarpsins, fjallaði um hið pólitíska landslag í að draganda þingsvetrar í byrjun síðustu viku. Hún batt enda á fréttaskýringuna með þessum orðum:

„Ef mark má taka á könnunum, þá skilar barátta stjórnarandstöðunnar í ræðustól á Alþingi litlu þar sem fylgi við flokkana þrjá minnkar jafnt og þétt.“

Skilaboðin úr Efstaleitinu til stjórnarandstöðunnar eru skýr.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.