Í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 11 maí fjallaði Óðinn um fjármál sveitarfélaganna, ekki síst Reykjavíkurborgar og meðal annars rifjuð upp upp tvö kosningaloforð R-listands sáluga.

Hér á eftir er pistillinn í fullri lengd.

Reykjavík, sextánföldun skuldanna og kratabælið

Óðinn hefur fylgst grannt með stöðu sveitarfélaganna undanfarin ár. Má segja að flest þeirra hafi farið sömu leið og ríkisstjórnin núverandi – eytt eins og enginn sé morgundagurinn.

Það er hins vegar svo, að sum réðu við þetta vegna hárra skatttekna eða lágrar skuldastöðu. Önnur eru nú á leiðinni fram af hengibrúninni skeri þau ekki niður í rekstrinum.

***

Mikilvæg ræða

Aldís Hafsteinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði og nú sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, mætti í Silfur Ríkisútvarpsins um miðjan apríl. Má segja að þar hafi tvær konur talað.

Sú fyrri sagði nokkuð sem ákaflega tímabært var að segja, umbúðalaust. Sem hún og gerði.

En síðan verður auðvitað að reka sveitarfélög. Þetta eru ekki geimvísindi, alveg sama hvort þú ert með 130 þúsund manna sveitarfélag eða 200 eða 50. Þetta er bara eitt risastórt húsfélag.

Svo hélt hún áfram. Sama konan:

Þannig að það sem kemur inn í húsfélagið höfum við til að eyða. En vandi sveitarstjórnarmanna er kjörtímabilin og þessi freistnivandi til að auka okkur vinsældir. Við verðum að geta sagt nei. Og mér hefur bara fundist vanta stórkostlega upp á það mjög víða, og örugglega gerst sek um það sjálf líka. Það er svo miklu skemmtilegra að segja já.

Þetta er allt saman rétt á hjá Aldísi. En stóri munurinn á húsfélagi og sveitarfélagi er hin eitraða blanda freistnivandans og möguleikans að taka lán – og það mikið af þeim.

Hitt sem Aldís sagði var algjörlega óskiljanlegt. Hún taldi að vandi sveitarfélaganna myndi hverfa með 1 prósentustiga hærra útsvari. Hún taldi að ríkið ætti að gefa eftir samsvarandi í tekjuskatti. Sama ríki og rekið er með 120 milljarða halla. Hugmyndin er fráleidd.

Enn fráleiddari hugmynd er að hækka útsvarið á íbúana án lækkunar tekjuskatts. Aldís lét eins og það yrði mikil ánægja með það meðal íbúa. Íbúanna sem eru eða fá yfir sig verðbólguna af fullum þunga þessa dagana í hærra vöruverði, hærri vöxtum og hærri lánum.

***

Reykjavíkurharmleikurinn

Sérstakar áhyggjur hljótum við öll að hafa af Reykjavíkurborg. Eftir að borgin hafði kynnt ársreikninginn reyndist vera grundvallarvilla í honum. Tapið var áfram tæpir 15,6 milljarðar króna, sem er ótrúlegur árangur í eyða peningum í vitleysu.

En villan sneri að því hvort reksturinn sé að skila peningum svo hægt sé að greiða afborganir lána, viðhalda eignum og svo framvegis. Í fyrri útgáfu skilaði hann rúmum 400 milljónum en leiðréttur reikningur segir að hann þurfi 2 milljarða króna. Fyrsta spurningin er hvort borgin geti greitt reikningana sína, greitt leikskólakennurunum og öllum hinum starfsmönnunum laun.

Í fyrradag var greint frá því að vef Viðskiptablaðsins, vb.is, að Reykjavíkurborg vilji ekki gefa upp lausafjárstöðuna. Það er sterk vísbending um að staðan sé ákaflega vond – jafnvel svo vond að greiðsluþrot sé alsendis ekki útilokað. Á íslensku kallast það gjaldþrot.

***

Fjárhaldsstjórn í stað borgarstjórnar?

Í tilviki sveitarfélaga kemur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga á staðinn og skoðar vettvanginn. Heimild er til dæmis að hækka útsvar og fasteignagjöld, 25% umfram hámarksheimildina samkvæmt lögum.

Þetta gerðist á Álftanesi. Þar settu vinstrimenn sveitarfélagið á hausinn. Þeir byggðu til dæmis öldusundlaug – sem virkaði aldrei. Árið 2010 skipaði sveitarstjórnarráðherrann fjárhaldsstjórn yfir bænum til að endurskipuleggja fjármál Sveitarfélagsins Álftaness.

***

Viðstöðulaus skuldasöfnun frá 1994

Reykjavíkurlistinn, eða R-listinn, komst til valda í Reykjavík árið 1994. Í stefnuskrá hans, sem var kosningabandalag vinstri manna og Framsóknarflokksins, sagði margt. Meðal annars þetta:

Gerð verði áætlun til langs tíma til að greiða upp skuldir borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur safnað.

Þegar stefnuskráin var lögð fram voru skuldir borgarinnar 11 milljarðar króna á núverandi verðlagi. Í dag nema skuldirnar 174 milljörðum króna. Er það 16 földun. Á sama tíma fjölgaði íbúum um 34%.

Nú veit Óðinn ekki hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri og félagar hennar hafi gert áætlunina. En miðað við árangur Samfylkingarinnar í Reykjavík, fyrst Ingibjargar Sólrúnar og síðar Dags B. Eggertssonar, pólitísks uppeldissonar Ingibjargar, þá væri milljónáraáætlunin viðeigandi heiti.

Skuld á hvern íbúa var 107 þúsund á hvern íbúa þegar Ingibjörg Sólrún tók við en er í dag 1,3 milljón á hvern íbúa. Það er að segja um síðustu áramót. Skuldin hefur hækkað síðan þá.

***

Synjunarstofnunin

Annað loforð R-listans árið 1994 var þetta í leikskólamálum:

Biðlistum eftir leikskólaplássum verði útrýmt.

Ingibjörg Sólrún var í viðtali í 20 ára afmælisblaði Viðskiptablaðsins árið 2014. Þá var litið til baka til stofnárs blaðsins, ársins 1994, þegar Ingibjörg varð borgarstjóri. Þar ræddi hún um leikskólamálin:

Í fyrsta lagi voru það leikskólamálin sem voru í algjörum ólestri í borginni. Dagvist Reykjavíkur, eins og hún hét þá, hún var ekki þjónustustofnun – hún var einhvers konar synjunarstofnun.

Ingibjörg Sólrún hætti sem borgarstjóri í ásbyrjun 2003. Ári áður voru teknar saman tölur yfir biðlista eftir leikskólaplássi. Árið 1994 voru 1.869 börn á biðlistum eftir leikskólaplássi. Í ársbyrjun 2002 voru þau 1883, þrátt fyrir að börn á leikskólaaldri væru 500 færri það ár en árið 1994.

Í dag þekkjum við stöðu mála í leikskólunum í Reykjavík. Hún hefur aldrei, í 237 ára sögu borgarinnar, verið verri. Synjunarstofnunin virðist því lifa góðu lífi þrátt við viðstöðulaus loforð vinstri manna frá árinu 1994.

***

Uppgjöfin

Tóninn í sveitarstjórnarfólki hefur undanfarið verið sá að fjármálin séu óyfirstíganlegt verkefni. Dagur B. Eggertsson kenndi málaflokki fatlaðra um 15,6 milljarða tap borgarsjóðs í fyrra, en sá útgjaldaliður fór aðeins rúmum 600 milljónum yfir fjárhagsáætlun. Svo ekki var það góð skýring. Og þetta væl sveitarstjórnarmanna er óþolandi. Því verkefnið er ekki svo flókið.

Sveitarfélög sinna gríðarlegum fjölda verkefna sem eru ekki bundin í lög. Það er pólitísk ákvörðun að ráðast í þau verkefni. Að auki er lögbundin verkefni svo matskennd að himinn og haf getur verið milli þess hvernig þau eru framkvæmd. Óðinn hefur áður bent á bókasöfnin. Þau eru lögbundið verkefni sveitarfélaga en sveitarstjórnirnar geta sjálfar ákveðið hvort titlarnir eru 10 eða milljón. Hvort starfsmennirnir séu engir eða 100.

Svo er nú það sem miklu máli skiptir, og líklega mestu, en það er hvernig sveitarfélögin eru rekin. Eitt er að ákveða hvað skuli gera í sveitarfélaginu, annað er hvort það sé gert með hagkvæmum og skynsamlegum hætti. Óðni finnst eins og það hafi farið til verri vegar á undanförnum árum. Ástæðan er sennilegast sú að í sveitarstjórnirnar veljast nú oft á tíðum önnur gerð fólks en áður – fólk sem hefur enga eða takmarkaða þekkingu á rekstri fyrirtækja.

Eða heldur einhver að framsóknarmaðurinn, sem hlaut góða kosningu í Reykjavík síðasta vor, hafi raunverulegt vit á rekstri borgarinnar eftir að hafa stýrt sjónvarpsþætti á ríkisfréttastöðinnni?

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

***

Alls ekki vonlaust verkefni

Tveir bæjarstjórar hafa að undanförnu glatt Óðinn. Þessir bæjarstjórar eiga það sameiginlegt að vera í Sjálfstæðisflokknum og vera konur.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi hefur á stuttum tíma orðið hin skynsama rödd Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Á sama tíma og formaðurinn virðist hafa misst vitið, að minnsta kosti peningavitið.

Ásdís hefur ítrekað bent á að vandi sveitarfélaga sé ekki ríkinu að kenna og ekki vegna ónógra tekna. Ásdís mætti á Hringbraut í haust og lét meðal annars þessi orð falla:

Mér finnst málflutningur okkar of oft snúast um að horfa til ríkisins í þessum efnum. En ég get ekki betur séð en að rekstur sveitarfélaga hafi þanist út almennt.

Við þurfum að forgangsraða. Líta á reksturinn í heild sinni og skoða hvaða þjónustu við erum að veita

Auðvitað er freistandi að fara í alls konar dúlluverkefni en við getum ekki endalaust verið að seilast í vasa skattgreiðenda. Það á auðvitað bæði við um sveitarfélög og ríkið.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

***

Kratabælið Hafnarfjörður

Eftir að hver sveitarstjórnarmaðurinn á fætur öðrum hafði sagt að rekstur sveitarfélaga gengi einfaldlega ekki í óbreyttri mynd þá birti Hafnarfjörður ársreikning sinn fyrir árið 2022. Bæjarsjóðurinn skilaði 254 milljóna afgangi og samstæðan öll skilaði 872 milljónum í afgang.

Þetta er glæsilegur árangur hjá Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og hennar fólki. Það sem er enn mikilvægara er að skuldir bæjarins hafa nánast staðið í stað allt síðan Rósa tók við stjórnartaumunum í bænum árið 2014. Það þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu, meiri uppbyggingu en í Reykjavíkurborg. Því er vart hægt að halda því fram lengur að Hafnarfjörður sé eitthvert kratabæli.

Óðinn leggur til að Dagur B. Eggertsson finni sér nýjar fyrirmyndir í stjórnmálum. Leggi Steingrími Hermannssyni og Ingibjörgu Sólrúnu – því þær fyrirmyndir reyndust ekki vel. Og bendir honum á að íhuga alvarlega Ásdísi Kristjánsdóttur og Rósu Guðbjartsdóttur. Sem eru helstu vonarstjörnur Sjálfstæðisflokksins þessi dægrin.