Breiðstrætin, fallegu garðarnir – ekki síst sá sem kenndur er við Lúxemborg - torgin og heillandi byggingar er það sem einkennir miðborg Parísarborg. Allt þetta gerir borgina einstaka. Það skiptir ekki máli hvenær borgin er heimsótt, hver árstíð hefur sinn sjarma.
Breiðstrætin, fallegu garðarnir – ekki síst sá sem kenndur er við Lúxemborg - torgin og heillandi byggingar er það sem einkennir miðborg Parísarborg. Allt þetta gerir borgina einstaka. Það skiptir ekki máli hvenær borgin er heimsótt, hver árstíð hefur sinn sjarma.
Parísarborg gjörbreyttist á árunum 1853 til 1870 og er sá tími kenndur við Haussman barón. Napóleon þriðji, keisari, fyrirskipaði þá miklar breytingar á borginni. Skipulagi borgarinnar var þá umturnað. Voru heilu borgarhverfin rifin, götur og stræti breikkuð og húsin hækkuð. Garðar, torg og gosbrunnar fóru nú að prýða borgina. Breytingarnar voru umdeildar lengi vel og stöðvaði Napóleon þær árið 1870 um tíma en þeim var síðan haldið áfram til ársins 1927. Þetta er París sem við þekkjum í dag.
Margir eiga sitt uppáhaldshverfi í París. Áttunda hverfið hefur breyst í áranna rás. Forríkir olíufurstar hafa keypt upp íbúðirnar þar og því er fasteignaverðið með því hæsta í heiminum. Hverfið hefur dalað hvað menninguna varðar þó að mörg bestu hótelin og veitingastaðina sé þar að finna.
En París eru tvær borgir. Glæsileg miðborgin og úthverfin. Í sumum úthverfum, þar sem innflytjendur frá gömlu nýlendum Frakka búa, er staðan svo slæm að meira að segja lögregla og slökkvilið neitar að fara þangað. Þaðan koma ósáttir innflytjendur, stundum klæddir gulum vestum, óánægðir með lífið og tilveruna.
Hér skaltu borða
Veitingastaðamenning Parísar er fræg um allan heim fyrir gæði og fjölbreytileika. Borgin býður upp á allt frá klassískum frönskum bistróum til nútímalegra veitingastaða með nýstárlegri matargerðarlist. Parísarbúar leggja mikla áherslu á ferskleika hráefna og fullkomnun í framsetningu rétta. Samfélagslífið snýst oft um að njóta góðra máltíða, og veitingastaðir borgarinnar eru staðir þar sem vinir og fjölskyldur safnast saman til að njóta lífsins.
Café de la Paix
Veitingastaðurinn Café de la Paix var opnaður árið 1862. Hann er glæsilegur og viðkomustaður margra sem eru
á leið i gömlu óperuna, en Opera Garnier er í næsta húsi. Það eru tveir réttir sem bera af á Café de la Paix, lauksúpan og þúsundblaðatertan. Hvort tveggja er jafn franskt og Dior eða Citroën. Það er ólíklegt að hægt sé að finna réttina jafn ljúfenga á öðrum veitingastöðum Parísar, þó víðar væri leitað.
Beef bar
Nærri Champs-Elysee – í hliðargötunni Rue Marbeuf sem liggur út af George V, opnaði einn þekktasti veitingastaður Parísar árið 1898. La Fermette Marbeuf var í rekstri til ársins 2018, þegar Beefbar opnaði. Það er upplifun að koma inn á staðinn. Hann er sagður hafa verið múraður inni í seinna stríði svo að nasistarnir eyðilegðu hann ekki þegar þeir tóku borgina yfir. Helsta upplifunin við staðinn er glæsilegt innanrýmið. Steikurnar eru einnig fyrsta flokks og sósu hússins má mæla með.
La Coupole
Einn sögufrægasti veitingastaður í París er La Coupole. La Coupole var opnaður árið 1927 og innréttaður í Art-deco stíl. Þegar staðurinn var opnaður segir fiskisagan að 2.500 gestir hafi verið viðstaddir opnunina og 1.200 flöskur af kampavíni drukknar. Listinn yfir fræga gesti í gegnum tíðina er langur. Eigendur La Coupole halda því fram að Francois Mitterand, sá forseti Frakklands sem lengst hefur gegnt embættinu, hafi snætt sinn síðasta kvöldverð á staðnum. Hann hafi setið á borði 82 og fengið sér lamb.
Meðal annarra fastagesta má nefna Pablo Picasso en listamenn sóttu staðinn mikið á árum áður. Svo er rétt að nefna Guðrúnu Bjarnadóttur, fegurstu konu veraldar árið 1963. Hún fer svo oft á staðinn að meira segja uppvaskararnir þekkja nafn hennar. Hún starfaði upp úr 1960, rétt eins og Þorsteinn Már Baldvinsson síðar, í Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Hún vildi gjarnan flytja frá litla bæjarfélaginu Keflavík og sjá heiminn. Lái henni hver sem vill. Því fór hún í ungfrú Íslands og vann, og síðan í ungfrú heim – til þess eins að komast á radar módelskrifstofa. En hún vann einnig ungfrú heim og neyddist því til að ferðast um tíma vegna hennar. Síðan flutti hún til Parísar, varð súpermódel í Frakklandi og Þýskalandi, og hefur, að sögn, verið með annan fótinn í París síðan.
Le Relais de l’Entrecôte
Valkvíði er stærsta vandamálið við að fara á veitingastað. Það á hins vegar ekki við um Relais de l‘ Entrecôt. Því þar er bara einn aðalréttur í boði, steik og franskar í meðlæti. Að ógleymdri sósunni grænu sem fyrst var kokkuð árið 1959. Svo er hægt að fá ábót aftur og aftur.
Staðurinn er á þremur stöðum í borginni. Þrátt fyrir það er nánast alltaf röð út úr dyrum. Relais de l‘ Entrecôt er franskur, einfaldur og maturinn er góður. Þjónarnir eru allir klæddir í einkennisföt sem minna á gamla tíma. Verðið er viðráðanlegt.
Le Jules Verne
Jules Verne er einn af dýrari veitingastöðum Parísarborgar og er á annarri hæð Eiffelturnsins, í 125 metra hæð. Eldhúsið hefur verið rekið af Alain Ducasse frá árinu 2007. Ducasse er eini matreiðslumeistarinn sem hefur rekið þrjá veitingastaði í þremur borgum sem hafa haft þrjár Michelin stjörnur á sama tíma. Jules Verne fékk í ár sína aðra Michelin stjörnu.
Meðal þekktra gesta á staðnum eru James Bond í A View to a Kill. Að jafnaði er margra mánaða bið eftir borði á staðnum, sérstaklega um helgar. Því hljóta væntingarnar að vera miklar hjá gestunum. Útsýnið er frábært, andrúmsloftið er þægilegt en maturinn er óskaplega fyrirsjáanlegur en alveg hreint ágætur. Verðið kemur ekki á óvart. Það er himinhátt.