Bruno Sacco fæddist í Udine í Norðaustur-Ítalíu árið 1933 og fagnaði 90 ára afmæli sínu í nóvember. Hann átti ítalskan föður og austurríska móður. Hann stundaði nám í verkfræði og hönnun við Politecnico di Torino, einn af fremstu tækniskólum Ítalíu.

Á bílasýningunni í Tórínó árið 1951 sá Sacco Stude-baker Commander, sem Raymond Loewy hannaði. Útlit þessa framúrstefnulega bíls, sem var innblásinn af flugvélum, breytti miklu í lífi hins 18 ára drengs. Frá þeim degi vissi Sacco að hann myndi verða bílhönnuður.

Sextíu árum síðar rifjaði hann upp hvernig var að sjá Studebaker í fyrsta sinn: „Sá bíll var eins og eitthvað frá öðrum heimi.“ Studebaker var neistinn sem kveikti ástríðu Sacco fyrir bílahönnun og eftir að hafa séð hann gat hann ekki losnað við bílinn úr huga sér og sagði að líf sitt hafði verið ákveðið.

Ætlaði að stoppa stutt hjá Mercedes

Sacco starfaði um tíma hjá ítölsku bílahönnuðunum Carrozzeria Ghia og Pininfarino. Viðtal við Karl Wilfert frá Daimler Benz sannfærði Sacco að flytjast til Þýskalands. Þann 13. janúar 1958 var hann ráðinn til Mercedes og fékk 650 þýsk mörk í mánaðarlaun. Það eru 875 þúsund krónur að núvirði.

Sacco ætlaði að stoppa stutt við í Stuttgart en áform hans breyttust. Hann giftist Annemarie Ibe frá Berlín árið 1959

Sacco vann að hönnun Mercedes-Benz 600. Bíllinn var búinn tæknibúnaði langt á undan sinni samtíð. Hér er hann í Landaulet útgáfu

Ný hönnunarstefna

Sacco varð aðalhönnuður Mercedes-Benz árið 1975 þegar hann tók við af Friedrich Geiger, sem hóf fyrst störf hjá fyrirtækinu árið 1933. Sacco tók við starfi hönnunarstjóra árið 1987 og sinnti því til 1999.

Sacco lagði mikla áherslu á öryggi og tæknilega getu, en hann taldi að hönnun og tækni ættu að vinna saman til að skapa hágæða ökutæki. Sacco mótaði hönnunarstefnu fyrirtækisins og rauður þráður í henni var að allir bílar með þriggja arma stjörnunni hefðu sameiginlega hönnunarþætti sem gerði þá auðþekkjanlega sem Mercedes-Benz bíla, þrátt fyrir að hver bíll hefði sinn karakter.

Þessi gerð Mercedes Benz E línunnar, W123, var framleidd frá 1975-1986. Þetta er mest seldi bíll Mercedes frá upphafi.

Kom að hönnun Großer Mercedes

Einn frægasti og tæknilega fullkomnasti bíll síns tíma, Mercedes 600 eða Stóri Mercedes, var meðal þeirra verkefna sem Sacco vann að áður en hann varð aðalhönnuður. Bíllinn kom á markað árið 1964 og framleiðslu var hætt árið 1981, eða 17 árum síðar.

Hann kom einnig að C111 sportbílnum sem leit dagsins ljós árið 1970 og var framleiddur í 16 eintökum. Bílinn var tilraunabíll þar sem hönnuðir og verkfræðingar Mercedes prófuðu ýmsar vélar og búnað, m.a. Wankel vélarnar. Mercedes frumsýndi Vision One-Eleven, nútímaútgáfuna af C111 á bílasýningunni í München í haust.

Mercedes C111 frá 1970 og Vision One Eleven sem var frumsýndur í haust.
Sacco við sinn uppáhaldsbíl, tveggja dyra útgáfuna af S-Class sem kom á markað árið 1979.

„Fallegasti framendi á bíl“

Fyrsta markverða hönnun Sacco var alveg nýr S bíll, W126. S bíllinn er krúnudjásnið frá bílaframleiðandanum. Nýi bíllinn var kynntur fyrir fjölmiðlum árið 1979 og einkennandi línur hans höfðu áhrif á útlit allrar Mercedes-Benz línunnar næstu tuttugu árin.

Uppáhaldsbíll Sacco var C126, eða sportútgáfan af S bílnum. Hann sagði í samtali við tímarit Mercedes fyrir nokkrum árum að „fallegasti framendi á bíl“ væri á sportútgáfunni. Einn af einkabílum Sacco er dökkblár 560 SEC.

Mercedes 190E eða Baby Benz.

Árið 1982 kynnti Mercedes 190E bílinn, W201 eða „Baby Benz“ eins og hann var kallaður. C línan tók síðar við af 190 bílnum. Bíllinn bjó til nýjan og yngri markhóp fyrir Mercedes-Benz. Með orðum Sacco sjálfs táknaði hönnunin „fullkomið dæmi um hvernig á að sameina nýjungar og hefðir“.

Mest selda hönnun Sacco og mest seldi bíllinn frá Mercedes frá upphafi er E bíllinn sem var framleiddur frá 1975 til 1986 og nefnist W123. Hann seldist í alls 2,7 milljónum eintaka.

Fjallað er um málið í Bílum sem komu út 6. desember. Áskrifendur geta lesið blaðið í heild sinni hér.