„Ég er ljósmyndari, markaðsráðgjafi, hlaðvarpsstjórnandi Helgaspjallsins og svo mikilvægast af öllu, tvíburi í sól, vatnsberi í tungli og rísandi bogamaður,“ segir Helgi Ómarsson þegar blaðamaður biður hann að lýsa sjálfum sér.

Við fengum Helga til að svara nokkrum spurningum um draumafríið sitt en honum finnst mjög gaman að ferðast.

Madrid kom Helga á óvart.
Madrid kom Helga á óvart.

Ertu duglegur að taka þér frí og ferðast?

Ég tel mig vera mjög duglegan að ferðast, og þar sem ég er rísandi bogamaður þá er held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir mig að vera alltaf með flugmiða í höndunum.

Ég er sérstaklega duglegur að ferðast til Asíu og reyni að fara tvisvar á ári með stórborgarfríum þar á milli. Mér finnst mikilvægast að brjóta upp veturna, svo að ferðast í febrúar og október hefur verið besta ákvörðunin.

Ég fór nýverið til Madrid með unnusta mínum, sem kom ekkert eðlilega mikið á óvart. Stórkostleg borg og endalaust hægt að skoða.

Hvað er uppáhalds fríið þitt hingað til?

Ég fer reglulega til Tælands, það er einhver tenging þar sem dregur mig þangað aftur og aftur. Árið 2016 fór ég þangað með besta vini mínum Palla, en hann er einmitt ættleiddur frá Tælandi. Við ferðuðumst um landið og skoðuðum loks ættleiðingarheimilið hans.

Einnig fór ég til Tælands með unnustanum, Pétri, í fyrra. Hann var með mér í tvær vikur og svo var ég eftir í þrjár vikur í viðbót á pínu lítilli eyju fyrir utan Malasíu þar sem ég var einn með sjálfum mér að velta fyrir mér lífinu.

Svo verð ég líka að nefna Japan árið 2019, en landið er náttúrulega gjörsamlega stórkostlegt. Og svo afmælisferðin hans pabba á Tenerife í fyrra. En það sem gerði þá ferð einstaka var að þetta var í fyrsta skipti sem við ferðuðumst öll saman fjölskyldan síðan 1997. Samveran var náttúrulega bara það besta í heimi.

Hver er drauma áfangastaðurinn?

Ég á Cambódíu og Víetnam eftir, ég væri til í að fara í eina ferð sem ég blanda þeim tveimur saman.

Helgi myndi vel geta hugsað sér að fara til Maldíveyjanna ef það væri ekki ólöglegt fyrir hann.
Helgi myndi vel geta hugsað sér að fara til Maldíveyjanna ef það væri ekki ólöglegt fyrir hann.

Ég myndi vilja fara til Maldíveyjanna ef það væri ekki kolólöglegt fyrir mig að vera þar sem samkynhneigður einstaklingur.

Ég og Pétur höfum líka verið að gera drög á því að fara til Evrópu á bíl og gista í litlum þorpum í fallegum löndum eins og Frakklandi, Ítalíu og eitthvað, hljómar það ekki mega kósí?

Ég á Mexico eftir líka, svo á ég restina af Japan eftir og Filippseyjar. En ég fór í mitt fyrsta skíðafrí á þessu ári til Val D’isere og núna þarf ég líka að fara safna hinum ýmsu skíðasvæðum útí heimi. Mjög skemmtilegt.

Hver er drauma félagsskapurinn í fríið?

Að ferðast með fjölskyldunni minni var eflaust skrautlegt fyrir aumingja mömmu og pabba hér árum áður, það er kannski ekki að ástæðulausu að við höfum ekki ferðast öll saman öll þessi ár.

Við höfum ferðast í svona sitt hvoru lagi, ég og litli bróðir minn, svo tvær eldri systur og allskonar útfærslur. En þau lærðu að við erum öll orðin fullorðin, sérstaklega stillt og drullu skemmtileg. Ferðin okkar til Tenerife síðasta sumar var sérstaklega skemmtileg og best í heimi að eyða tíma með fjölskyldunni.

Helgi fór í fjölskylduferð til Tenerife í fyrra.
Helgi fór í fjölskylduferð til Tenerife í fyrra.

Svo mundi ég allan daginn segja Pétri, unnustanum mínum sem er bara besti maður í heimi og svo Palla sem er minn allra besti vinur. Palli splæsir alltaf í ævintýri, sum trylltari en önnur.

Lýstu hinum fullkomna degi í fríinu þínu.

Þó að ég sé ofvirkur tvíburi þá kemur kannski sérstaklega á óvart hvað ég er chillaður í fríum.

Ég elska aðalega góðan mat, slökun, sjá eitthvað magnað, fræðast, hlusta á góðar bækur, horfa á nýja menningarheima og rölta um og skoða og já, drekka fullt af Matcha latte. Sem gerir mig mögulega ekkert sérstaklega skemmtilegan ferðafélaga.

En ég elska líka allt adrenalín, sem gerir mig aðeins skemmtilegri.