Viðskiptablaðið og Frjáls verslun fengu að venju tvo þekkta vínsérfræðinga til að mæla með góðum hátíðarvínum fyrir lesendur Áramóta. Í gær var greint frá hátíðarvínum Þorra Hringssonar en hér eru vínin sem Steingrímur Sigurgeirsson mælir með.
Steingrímur Sigurgeirsson hefur skrifað greinar um vín í þrjá áratugi, fyrst í Morgunblaðið en síðan á vefsíðunni Vínótek, sem margir þekkja. Hann velur að þessu sinni rauðvín frá Rioja á Spáni og Languedoc-Roussillon í Frakklandi, sem og hvítvín frá Pfalz í Þýskalandi.
Kallstadter Saumagen 2022
Þjóðverjar gera einhver bestu matarvín sem hægt er að hugsa sér og Riesling þrúgan er ekki að ósekju stundum kölluð drottning vínþrúgnanna. Koehler-Ruprecth hefur ræktað Riesling í kringum þorpið Kallstadt í Pfalz um aldabil og er þekkt fyrir sinn þurra og míneralíska stíl. Einhver bestu vínin koma af Saumagen-ekrunni og þetta Kallstadter Saumagen 2022 er skilgreint sem Kabinett Trocken, en Kabinett-vínin eru fínlegri og léttari en Spätlese-vínin. Víngerð Koehler-Ruprecht er af gamla, þýska skólanum. Gerjunin sjálfsprottin í tunnum og vínin síðan í kjölfarin látin þroskast á stærri ámum. Þarna vantar ekki ávöxtinn, ferskjur, ananas, epli og sítrónubörk, í nefinu líka kalk og hunang, ungt og ferskt. Þetta er vínið fyrir humarinn og graflaxinn. Kr. 3.500 (Kampavínsfjelagið)
La Rioja Alta Gran Reserva
Þegar fjallað er um sígild Rioja-vín eru vínin frá La Rioja Alta með þeim fyrstu sem koma upp í kollinn. Saga þess hófst árið 1890 þegar að fimm fjölskyldur í héraðinu tóku sig saman og stofnuðu Vínfélag Efri-Rioja eða Sociedad Vinicola de La Rioja Alta. Afkomendur þessara fjölskyldna hafa síðan haldið rekstri þess áfram og nú er það sjötta kynslóðin sem er við stjórnvölinn. La Rioja Alta Gran Reserva 904 Seleccion Especial er eins sígilt í stílnum og Rioja-vín verða. Þetta er auðvitað Tempranillo en það er 10% af Graciano bætt saman við, vínið geymt fjögur ár á amerískum eikartunnum og síðan fjögur ár á flösku áður en það fer á markað. Núna er árgangurinn 2015 í sölu. Nefið er þroskað og kryddað, sætur, þroskaður berjaávöxtur, sultuð jarðarber, rifsber, leður, kaffi og krydd. Sýran fersk og flott. Einstaklega mjúkt og langt. Þetta er vínið með nautinu, lambinu, öndinni og hreindýrinu. Kr. 10.999 (ÁTVR)
Gerard Bertrand Le Viala
Gerard Bertrand er einhver áhrifamesti víngerðarmaður Frakklands og segja má að hann hafi persónulega umbylt ásýnd og ímynd Languedoc í suðurhluta Frakklands á síðustu áratugum með því að sýna fram á hversu stórkostleg vín er hægt að framleiða þar. Bertrand á ein sautján vínhús á mismunandi svæðum í Languedoc og vínin sem framleidd eru á þeim skiptast í yfirleitt tvo eða þrjá flokka. Fyrsta er það hið venjulega vín hússins, síðan kemur "Grand Vin" og loks er í sumum tilvikum framleitt vín sem kemur af afmörkuðum hluta eignarinnar þar sem aðstæður eru einstakar. Le Viala er eitt þessara ofurvína og er framleitt í vínhúsinu Charteau Laville-Bertrou á svæðinu La LIviniére í Minervois en það er einmitt á þessu svæði sem að vínhúsið Clos d'Ora, líklega besta vín Suður-Frakklands, er framleitt. Það má einnig nefna að allar ekrur á vínhúsunum eru ræktaðar með bíódýnamískum hætti.
Le Viala er blanda úr Syrah, Grenache og Carignan, nánast ýkt vín það er svo dökkt, massað og mikið, Liturinn ógegnsær og nefið er hyldjúpt,sultuð bláber og krækiber, cassis og blóm, kryddað með dæmigerðu suður-frönsku „garrigue“-ívafi, angan af villtu kryddjurtunum sem vaxta í kringum ekrurnar. Eikin er enn áberandi, vínið míneralískt og langt, tannín mjúk og vínið hefur mikinn ferskleika. Þetta er vínið fyrir kröftugu villibráðina, ekki síst rjúpuna og ræður við allt meðlæti, feitt, sært og súrt. Kr. 10.499 (ÁTVR)