Viðskiptablaðið og Frjáls verslun fengu að venju tvo þekkta vínsérfræðinga til að mæla með góðum hátíðarvínum. Hér eru vínin sem Þorri Hringsson mælir með en á morgun verða birt vín sem Steingrímur Sigurgeirsson valdi.

Þorri Hringsson myndlistarmaður hefur um árabil skrifað um vín. Á Facebook síðunni Víngarðinum birtir hann reglulega víndóma. Þorri kemur víða við í sínu vali. Hann byrjar glæsilegu kampavíni og mælir svo með einu frægasta hvítvíni Nýja-Sjálands. Því næst tekur Þorri fyrir tvö spænsk rauðvín, annarsvegar klassískt vín frá Rioja og hins vegar eitt besta vínið frá Ribera del Duero. Með eftirréttinum mælir Þorri með Moscato-víni frá Piemonte á Ítalíu.

Laurent Perrier Grand Siécle °26

Vínið sem var valið vín ársins hjá James Suckling, ljósgullið að lit og hefur unglegan og meðalopinn ilm sem er ákaflega ferskur en þarna má greina bökuð rauð epli, vínarbrauð og smjördeig, peru, vanillukrem, sítrónubörk, flatköku, heslihnetur og kalkrík steinefni. Það er svo kröftugt og ungt í munni, sýruríkt og hefur nánast fullkomið jafnvægi meðan það staldrar við, og það er einmitt lengi að hverfa á braut. Þarna eru sítrusávextirnir framar en í nefinu, sítrónubörkur og límóna en einnig epli (jafnvel eplabaka), croissant., ristaðar möndlur, vanillukrem og í lokin má greina sölt steinefni. Verulega glæsilegt og gómsætt kampavín, án efa besti fordrykkur sem þið getið krækt ykkur í á jólunum.

Kr. 34.900 (ÁTVR)

Cloudy Bay Sauvignon Blanc 2023

Eitt frægasta Sauvignon Blanc Nýja-Sjálands. Grösugt og grænt fremst í glasinu, aspas, baunagrös og nýslegið hey en svo má fljótlega rekast á ávexti á borð við peru, ananas, mangó, passjón og rifsber. Einnig feitari tónar á borð við jógúrt og kókoshnetur ásamt sítrónusmjöri og í bakgrunni leynast þarna steinefni sem minna á blautan stein eða jafnvel blautt mjöl. Það er svo ríflega meðalbragðmikið í munni með afar góða og ferska sýru, frábært jafnvægi og langvarandi bragðprófíl. Einstaklega ljúffengt og vel gert Sauvignon Blanc, sannarlega eitt af þeim bestu sem eru gerð í þessum heimi og á fyllilega skilið þá frægð sem því hefur hlotnast.

Kr. 4.999 (ÁTVR)

Marqués del Silvo Gran Reserva 2015

Rauðvín frá Rioja gerast vart klassískari: djúp-plómurautt vín að sjá og meðalopið með dæmigerðan bragðprófíl en þarna er ekki ólíklegt að rekast á sultuð dökk ber, bláber og brómber en einnig Mon Chéri-mola, þurrkaðan appelsínubörk, balsam, leirkennda steinefnatóna, kaffi og toffí og þótt vínið sé eikað duglega á hefðbundin hátt er eikin fjarri því að vera framarlega í nefninu. Það er svo nokkuð kröftug í munni, sýruríkt, fínlegt og langt með afar mjúk tannín svo jafnvægið er framúrskarandi gott. Þarna eru dökku berin fremst, sultuð bláber og krækiber ásamt brenndum sykri, þurrkuðum appelsínuberki, kakó, kirsuberjum, toffí, rykugum steinefnum og brenndum fíkjum. Frábært rauðvín sem er gott að hafa með betri kjötréttum.

Kr. 3.237 (ÁTVR)

Dominio de Atauta 2020

Eitt af bestu vínunum frá Ribera del Duero sem við eigum kost á að versla hérna; ríflega meðaldjúpt, kirsuberjarautt vín að sjá og hefur nokkuð opinn ilm sem er ungur og ferskur á þessari stundu og gefur til kynna að vínið sé langtímafjárfesting. Þarna er rauður ávöxtur fremstur í nefinu aðallega kirsuber (og slær út í gospillu) og hindber en einnig krækiberjasaft, súkkulaði, austurlensk krydd, þurrkaður appelsínubörkur, rósmarín, rósir, steinefni og ljúfir eikartónar sem minna á toffíkaramellu og vanillu. Það er svo kröftugt, þurrt og sýruríkt í munni en jafnframt afar ferskt og fágað með langvarandi bragð og talsvert magn af mjög fínlegum tannínum. Margslungið og fínlegt og fer vel með allskonar mat, algert hátíðarvín.

Kr. 4.998 (ÁTVR)

Cordero Sangiorgio

Cordero Sangiorgio Exergia Moscato d’Asti 2023 er dásamlegt eftirréttavín frá Piemonte á Ítalíu. Ljós-sinugult að lit og hefur ríflega meðalopinn ilm sem er bæði sætkenndur og kryddaður og þarna má greina vínber, gúmmíbangsa, lyche, græn epli, peru, blómvönd, rúsínur, lavender og jafnvel Bergamot-olíu. Þetta er heillandi og unaðsleg angan sem ætti að koma hverjum og einum í jólaskap. Það er svo ríflega hálfsætt með létta freyðingu og virkilega góða sýru svo jafnvægið í víninu er mjög gott. Í munni má rekast á epli, peru, niðursoðna austurlenska ávexti, Bergamot-olíu (eða jafnvel Blóðberg), sætan sítrus og vínber. Fínlegt og dásamlega léttleikandi vín sem sumum finnst gott, bara eitt og sér, en Moscato-vín frá Asti eru einhver bestu eftirréttavín sem finna má og hægt að tefla þeim með nánast hvaða eftirrétt sem er nema dökku súkkulaði.

Kr. 2.290 (ÁTVR)

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.