Stefán Einar Stefánsson stýrir viðskiptaþáttum Dagmála á mbl.is og hann var um árabil fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu. Hann er mikill bílaáhugamaður og finnst skemmtilegt að tengja saman flotta bíla og aðrar lystisemdir lífsins, sem birtist meðal annars í því að hann er eigandi Kampasvínsfjelagsins & co.

Stefán Einar Stefánsson stýrir viðskiptaþáttum Dagmála á mbl.is og hann var um árabil fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu. Hann er mikill bílaáhugamaður og finnst skemmtilegt að tengja saman flotta bíla og aðrar lystisemdir lífsins, sem birtist meðal annars í því að hann er eigandi Kampasvínsfjelagsins & co.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Ég á erfitt með að gera upp á milli tveggja svakalegustu rafbílanna sem ég hef komist í tæri við, þ.e. Mercedez-Benz EQS 580 4MATIC og Porsche Taycan Turbo S.

Báðir njóta hinnar nýju tækni sem rafmótorinn er en eru um leið gjörólíkir. EQS eins og flugmóðurskip og drossía úr framtíðinni meðan Taycan er orrustuþota sem maður gæti helst trúað að gæti beitt gegn Wagner-liðum í austurhluta Úkraínu.

Síðarnefndi bíllinn er reyndar svo kraftmikill að það er ekki hægt að koma því í orð. Fer á 2,8 sekúndum úr 0 og upp í 100 og hefur nákvæmlega ekkert fyrir því. Og þessi bíll er svo vel byggður að hann lætur eins og að um lautarferð sé að ræða þegar hann er pískaður áfram á hraðbrautinni. Þess vegna verð ég að segja að rafmagnið hefur vinninginn í mínum huga – ekki síst til framtíðar.

Við vitum hvað það getur gert, en ég held að við höfum ekki hugmynd um hversu stórkostlega akstursupplifun það á í raun eftir að færa okkur á komandi 5-10 árum. Þessir tveir bílar, frá þýskum framleiðendum, hafa fært okkur heim sanninn um það.“

Stefáni Einari langar í gylltan Bentley Bentayga með kampavínskæli í skottinu.

Hver er draumabíllinn?

„Þessi árin eru tveir atkvæðamiklir drengir í öndvegi á heimilinu og margt sem fylgir þeim, ekki síst þegar við erum á ferðalögum. Þess vegna þætti mér ekki verra að eiga Mercedes-Benz GLS. Í þeim bíl má rúma allt, hálfa búslóð jafnvel. Það væri því praktískt mál í meira lagi að hafa slíkt tæki í innkeyrslunni.

Hins vegar er ég forfallinn rafmagnsmaður og hver gæti slegið hönd á móti púðurbleikum Porsche Taycan - Í alvörunni.

Sem kampavínsunnandi get ég þó ekki komist hjá því að hugsa til Bentley Bemtayga. Gylltur slíkur með kampavínskæli í skottinu er bíll sem gaman væri að aka að Flosagjá á Þingvöllum og opna svo í kvöldkyrrðinni eina góða flösku af Clos des Goisses 1999. Svo þyrfti maður að geta hringt í þjónustu til að koma bílnum aftur heim.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.