Sagan segir að síðla árs árið 1914 hafi nokkrir bræður setið á kaffihúsi við hið fagra torg Piazza Maggiore í heimaborg sinni í Bologna þegar þeir fengu hugmyndina að því að stofna fyrirtæki sem framleiddi bíla. Þá dreymdi um að smíða sportbíla.
Þeir eru sagðir hafa horft á styttuna við torgið af Neptúnisi með þríforkinn og ákveðið að hann yrði merki fyrirtækisins. Þann 1. desember 1914 stofnuðu þeir Officine Alfieri Maserati – Verkstæði Alfieri Maserati. Alfieri var elstur Maserati bræðranna, sem voru sex. Fimm þeirra störfuðu við fyrirtækið en sá sjötti teiknaði merkið.
Fyrsti bíllinn og heimsmetið
Fyrsti bíllinn sem bar Maserati-merkið opinberlega var Tipo 26, hannaður af Alfieri Maserati og byggður á Grand Prixbíl sem hann smíðaði fyrir Diatto – sem var einn elsti bílaframleiðandi Ítalíu.
Bíllinn tryggði fyrsta sigur Maserati, í júní 1926, í keppninni Targo Florio í Bologna, með Alfieri við stýrið, þar sem hann náði hraða yfir 166 km á klukkustund. Árið 1929 setti Maserati sitt fyrsta heimsmet með því að ljúka 10 km vegalengd á meðalhraðanum 246 kílómetrar á klukkustund.
Alfiero, sem var lykilmaður í fyrirtækinu, lenti í alvarlegu bílslysi árið 1927 og lést af nýrnabilun því tengdu árið 1932.
Á næstu tuttugu árum framleiddi Maserati einungis kappakstursbíla. Þeir urðu frægir fyrir að vinna fjölmargar keppnir, þar á meðal Tripoli Grand Prix árið 1930 (í fyrsta sinn sem Maserati hafði betur en Ferrari) og Indianapolis 500 árin 1939 og 1940.
Bræðurnir selja
Árið 1937 seldu eftirlifandi bræðurnir fyrirtækið til Adolfo Orsi, sem flutti fyrirtækið frá Bologna til Modena þar sem það hefur haft höfuðstöðvarnar síðan. Þrír Maserati bræðranna unnu áfram við framleiðslu bílanna sem létu áfram mikið að sér kveða á keppnisbrautunum. Maserati 8CTF, átta sílendra 365 hestafla, vann 1939 og 1940 hinn merka Indianapolis 500 kappakstur.
Mussolini vildi Maserati
Benito Mussolini, einræðisherra Ítalíu, hreifst mjög af Maserati og lét fyrirtækið framleiða fyrir sig lúxusbíl á stríðsárunum. Sú framleiðsla mistókst en bíllinn átti að heita V16. Mussolini var einnig þeirrar skoðunar að ítölsku bílaframleiðendurnir ættu að smíða bíl fyrir almenning, rétt eins og Ferdinand Porsche var fenginn til að smíða Volkswagen Bjölluna fyrir Adolf Hitler.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.