Það er eitthvað við loftið í London – blandan af gömlum múrsteinum og nýrri orku – sem kveikir löngun til að uppgötva, prófa nýtt og týna sér í menningu, mat og mannlífi. Þetta er borg sem fær þig til að vilja klæðast regnkápu, drekka espresso á gangstéttarkaffihúsi og skrifa fyrstu línuna í skáldsöguna þína (jafnvel þótt hún endi bara sem Instagram-færsla). Hvort sem þetta er fyrsta heimsóknin þín eða fimmta ferðin í röð, þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa.
Hér skaltu gista:
Claridge’s (Mayfair)
Ef þig langar að upplifa hvernig það er að vakna í alvöru breskum lúxus, þá er Claridge’s óumdeilanlegt val. Þetta sögufræga hótel í hjarta Mayfair hefur hýst alla frá Winston Churchill til Audrey Hepburn, og þjónustan er enn í dag í hæsta gæðaflokki. Art deco stíll, silkimjúk rúmföt og óaðfinnanleg þjónusta gera dvölina að sannkallaðri konunglegri upplifun.


NoMad Hotel (Covent Garden)
NoMad Hotel í Covent Garden er í enduruppgerðri lögreglustöð og hentar fullkomlega þeim sem kunna að meta smekkvísi og sögulega dýpt. Herbergin eru fáguð og hlýleg – og staðsetningin gerir það að verkum að þú ert alltaf í göngufæri við helstu leikhús og listasöfn borgarinnar. Veitingastaðurinn er í glersal með gróðri, kertaljósum og rólegri stemningu sem minnir á París – nema í London.

The Pilgrm (Paddington)
The Pilgrm er boutique-hótel með mikinn karakter í klassískri viktoríanskri byggingu. Herbergin eru smekklega innréttuð og þjónustan persónuleg án þess að vera yfirdrifin. Þetta er hótel fyrir þá sem vilja vanda sig, en ekki eyða um efni fram. Frábær staðsetning fyrir þá sem koma með lest og vilja slaka á í rólegu hverfi í miðborginni.

Shoreditch House (Shoreditch)
Shoreditch er eitt mest skapandi og lifandi hverfi London, þekkt fyrir einstaka hönnun, vegglist, tísku og tónlist. Upprennandi listafólk, áhrifavaldar og frumkvöðlar hafa myndað samfélag sem gefur hverfinu sérstakt andrúmsloft. Í hjarta þessa svæðis stendur Shoreditch House, einkaklúbbur í Soho House-keðjunni sem sameinar lúxus, afslöppun og skapandi umhverfi. Þeir sem fá aðgang geta notið þakverandar með sundlaug og útsýni yfir borgina, notað vinnuaðstöðu, slakað á í sætum setustofum, borðað góðan mat og kíkt á barinn á kvöldin með kúl krökkunum. Þetta er staður fyrir fólk sem lifir og hrærist í nútíma borgarmenningu

Hér skaltu borða:
The Wolseley
The Wolseley við Piccadilly er fullkominn staður til þess að fá sér Egg Benedict, kampavín og upplifa sögulegt umhverfi í senn. Húsnæðið var upphaflega bílasýningarsalur á 3. áratugnum, en hýsir nú glæsilegt veitingahús í anda evrópskra kaffihúsa. Þjónustan er nákvæm, andrúmsloftið látlaust og maturinn klassískur með bresku ívafi.

Seabird
Á 14. hæð The Hoxton Southwark trónir Seabird – staður sem sameinar stórkostlegt útsýni, framúrskarandi sjávarrétti og afslappaða hádegis- eða kvöldstemningu. Þakveröndin horfir til St. Paul’s og The Shard, og ostrulistinn er sá lengsti í London. Stíllinn er suður-evrópskur með marokkóskum blæ – og hér finnurðu bæði ferðamenn, matgæðinga og fólk sem veit nákvæmlega hvar það vill vera.

Sessions Arts Club
Sessions Arts Club er í gömlu dómshúsi í Clerkenwell og sameinar mat, list og rómantískt andrúmsloft á einstakan hátt. Innra rýmið er dramatískt – og verkin á disknum jafn áhrifarík og þau á veggjunum. Þetta er staðurinn sem allir eru að tala um, og af góðri ástæðu.

Brutto
Brutto í Farringdon minnir helst á litla trattoríu í útjaðri Flórens. Hér færðu hlýlegt andrúmsloft, fjölskyldustemningu og réttina sem gera Ítalíu að þeirri matarmenningarperlu sem hún er. Pantaðu pasta, deildu flösku af Chianti og leyfðu þér að gleyma öllu öðru í tvo tíma. Þetta er staðurinn sem heimamenn halda fyrir sig – og þú skilur fljótt af hverju.

Þetta skaltu gera:
Skoðaðu Tate Modern og njóttu útsýnisins
Tate Modern er í endurbyggðri rafstöð og hýsir eitt magnaðasta safn nútímalistar í Evrópu. Hér sérðu verk eftir meistara á borð við Rothko, Kapoor og Bourgeois – og stundum líka eitthvað sem þú skilur ekki alveg, en nýtur samt. Kaffihúsið á efstu hæð býður upp á eitt besta útsýni yfir Thames og St. Paul’s, svo þú þarft ekki að skilja listina til að meta ferðina.

Gerðu þitt eigið ilmvatn hjá Experimental Perfume Club
Í Covent Garden býðst þér að skapa þitt eigið ilmvatn með leiðsögn sérfræðinga hjá Experimental Perfume Club. Þú lærir um byggingu ilms, blandar saman nótum og ferð heim með flösku sem enginn annar á – og sem lætur þig ekki lykta eins og fríhöfn. Frábær gjöf, eða bara gjöf til sjálfrar þín.

Columbia Road blómamarkaðurinn á sunnudegi
Á sunnudögum breytist Columbia Road í litasprengju sem ilmar af ferskum blómum og lifandi mannlífi. Hér raða blómasalar sér meðfram götunni og bjóða allt frá klassískum rósum og túlípönum til óvenjulegra pottaplantna. Söluhrópin eru hluti af heildarupplifuninni – bresk kímni og sölulist í senn – og stemningin ómótstæðileg. Götuna umlykja litlar sérverslanir, kaffihús og gallerí sem gaman er að rölta um eftir að blómin eru komin í poka. Þetta er staðurinn þar sem heimamenn og gestir koma saman til að njóta morgunsins.

Brick Lane Market fyrir matarglaða og forvitna
Brick Lane Market er spegilmynd fjölbreytileika borgarinnar. Götumatur frá öllum heimsálfum, vintage-föt, bækur, list og beyglur sem sumir telja þær bestu utan New York. Hér geturðu slappað af, skoðað, smakkað og fundið þér eitthvað óvænt – hvort sem það er krydd, jakki eða vinátta.

Göngutúr um Litlu Feneyjar (Little Venice)
Nálægt Paddington leynast Litlu Feneyjar – róleg og einstaklega falleg síki þar sem litríkir húsbátar liggja við bakkann. Þetta er hinn fullkomni staður til að hefja daginn á göngu, rólegri bátsferð eða morgunverði á Waterside Cafe eða Café Laville með útsýni yfir vatnið. Á haustin, þegar laufin speglast í kyrru yfirborði síkjanna, verður stemningin eins og að vera inn í fallegri ljósmynd.
Umfjöllunina er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu.