Áhugi Erlu á svefni kviknaði þegar hún var í mastersnámi í sálfræði og var að vinna lokaverkefni um þunglyndi og offitu.
„Ég fer að skoða tengslin á milli offitu og þunglyndis og sé að kæfisvefn er sameiginleg breyta hjá þessum hópum. Ég var að útskrifast sem sálfræðingur og hafði ekkert lært um svefn sem er auðvitað mjög skrítið. Ég sá að svefnleysi tengdist öllum geðsjúkdómum og mér fannst þetta afar spennandi viðfangsefni. “

Í kjölfarið ákvað Erla að fara í doktorsnám í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands og leggja áherslu á svefn. Í náminu kviknaði hugmyndin að fyrirtækinu Betri svefn, sem er rafræn meðferð við svefnleysi sem styðst við hugræna atferlismeðferð.
„Ég var að halda erindi á læknadögum um svefnlyfjanotkun og hugræna atferlismeðferð en þar voru tveir ungir læknar sem voru auk þess forritarar, sem gáfu sig á tal við mig og höfðu mikinn áhuga á að gera eitthvað saman tengt viðfangsefninu. Við fórum með verkefnið í Gulleggið og þar varð Betri svefn til, árið 2013.“

Heyrði fyrst um tengsl hormóna og svefns í jógaferð í Taílandi

Erla segir við langt komin með rannsóknir á sviði svefns en um leið að alltaf sé eitthvað nýtt að koma í ljós og að á sumum sviðum sé þörf á frekari rannsóknum.
„Svefn hefur mikið verið rannsakaður og þá sérstaklega atriði eins og kæfisvefn. Við erum aftur á móti skemur komin með svefnleysi og kynjamun. Það sem ég er mest heilluð af núna er svefnleysi kvenna í tengslum við hormón og breytingaskeið, þeir þættir eru vanrannsakaðir. Sem skýrist líklega af því að þeir vísindamenn sem hafa verið að rannsaka svefn í gegnum tíðina hafa helst verið karlar og haft meiri áhuga á svefni karla, hrotum og kæfisvefni.“

Í jógaferð í Taílandi fór Erla á fyrirlestur hjá erlendum lækni um hormónaheilsu kvenna og í kjölfarið fór hún að leggja áherslu á að hjálpa konum að sofa.
„Svefn kvenna er breytilegur í tengslum við tíðarhringinn og heilavirknin er mismunandi eftir því hvar við erum í honum. Konur eru að upplifa mestan svefnvanda síðustu dagana fyrir blæðingar, þá er minni draumsvefn og hann er mikilvægur fyrir úrvinnslu tilfinninga og andlegt jafnvægi. Á þessum tíma finna konur fyrir svefnleysi og innra ójafnvægi sem skýrist að miklu leyti af þessum hormónasveiflum. Ég var að læra um þessi tengsl hormóna og svefns í fyrsta skipti á þessum fyrirlestri og fékk hugljómun á sama hátt og þegar ég byrjaði að læra um svefn fyrir mörgum árum síðan. Ég skildi ekki af hverju ég var að heyra þetta fyrst núna.“

Fyrsta svefn-snjallforritið fyrir konur

Svefnforritið SheSleep kom út í mars á þessu ári en verkefnið hefur verið í bígerð í þrjú ár. Forritið er heildræn lausn fyrir allar konur, allt frá því að vera fræðandi fyrir þær sem hafa áhuga á svefni og heilsu og vilja fylgjast með tíðahringnum og svefni, yfir í það að mæta konum með alvarlegan svefnvanda.

Erla segir forritið vera öflugt tól inn í heilbrigðiskerfið til þess að spara tíma en auðvelt er að deila gögnunum með þriðja aðila, eins og lækni eða sálfræðingi.

„Við fengum styrk frá Tækniþróunarsjóði til þess að láta þetta verða að veruleika. Þetta er fyrsta svefnforritið í heiminum sem er eingöngu fyrir konur og við erum ótrúlega ánægð með það. Við erum með rafræna sex vikna meðferð inni í forritinu auk þess að geta tengt konur við svefnsérfræðing ef þörf er á einstaklingsmiðaðri meðferð.“

Erla hefur haldið erindi á fjölmörgum ráðstefnum um svefn.

Konur nánast tvöfalt líklegri til þess að vera með svefnvanda

Erla segir svefnþörf og svefnvanda vera ólíkan eftir kynjum. Konur séu í 40% meiri hættu á svefnleysi en karlar og á ákveðnum skeiðum lífsins sé áhættan mun meiri.
„Meirihluti kvenna á breytingaskeiði er með svefnvanda, hormónin hafa mikil áhrif. Við erum líka að sjá miklu meiri streitu hjá konum og það skilar sér beint í svefnleysinu. Almennt séð þurfa konur meiri svefn en karlar, og konur upplifa frekar slæmar afleiðingar af því að missa svefn.“

Hún segir að nálgast þurfi viðfangsefnið á ólíkan hátt eftir kyni og fræðsla um hormónakerfið sé mjög gagnleg.
„Í SheSleep erum við með fræðslu um hvað er að gerast á hverju skeiði hringsins og hvaða áhrif það hefur. Um leið og þú hefur meiri upplýsingar um líkamlegt ástand þitt getur þú aðlagað þig að því.“

Í forritinu er tíðarhringnum skipt upp í fjögur skeið og talað um innri árstíðir.
„Um leið og þú veist hvað það þýðir að vera á blæðingum, að orkan sé minni, þörf sé á meiri hvíld og að meiri líkur séu á að slasa sig við æfingar, þá er hægt að forgangsraða á annan hátt en vanalega. Svo eru önnur skeið eins og egglosið, þar sem estrógenið er í hámarki og minni svefnþörf, meiri orka, sjálfstraust kvenna mælist mest á því skeiði og kynhvötin er mest. Þetta eru atriði sem gott er að vita um sjálfa sig og að það eru líkamlegar ástæður fyrir þessu.“

Helmingur sem leitar á heilsugæslu með svefnvanda

Svefnvandi er algengt vandamál og Erla bendir á að um helmingur þeirra sem leiti til heilsugæslu sé að glíma við svefnvanda.
„Það sem kannski gerir Íslendinga frábrugðna öðrum er að rannsóknir hafa sýnt að við förum seinna að sofa heldur en aðrar þjóðir. Mögulega af því að við erum ekki alveg á réttu tímabelti. Við notum líka miklu meira af svefnlyfjum og erum með heimsmet í notkun þeirra miðað við höfðatölu, bæði hjá fullorðnum og börnum, sem er mikið áhyggjuefni.“

Hún segir að svefnlyf geti nýst vel við ákveðnar aðstæður til þess að rjúfa vítahring skammtíma svefnleysis en mælir ekki með þeim við langvarandi vanda.
„Ef við lendum í skyndilegu svefnleysi, áfalli eða veikindum er hægt að nota svefnlyf í skamman tíma. Ef svefnleysið er langvarandi þá er eitthvað í lífsstílnum, líðan eða umhverfi sem er að hafa áhrif og það verður að vinna með þá þætti til þess að uppræta vandann.“

Erla segir að allir eigi að geta fengið lausn við svefnvanda en að vandinn sé auðvitað misalvarlegur og af ólíkum orsökum.
„Þetta er flókið og það er allt í lífinu sem getur haft áhrif á svefn. Hugræna atferlismeðferðin snýst um að kortleggja svefn, lífsstíl og streituvalda til þess að geta unnið með þetta heildrænt og breyta venjum. Það tekur auðvitað tíma og getur verið erfitt en árangurinn er mjög góður. Vandinn er af ólíkum toga og sumir eru með líkamleg veikindi eða alvarlegar orsakir fyrir svefnleysi en ég hef ekki ennþá hitt manneskju sem getur ekki gert breytingar til þess að bæta svefninn sinn.“

Erla hefur gefið út bækur um svefn fyrir bæði börn og fullorðna.

Ríkisstyrktar lausnir sem ekki má nota

Að mati Erlu má margt bæta innan heilbrigðiskerfisins til þess að veita einstaklingum betri þjónustu á skemmri tíma.
„Heilbrigðiskerfið er ekki að grípa fólk nógu snemma og bjóða upp á bestu mögulegu meðferð. Klínískar leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni segja að nota eigi hugræna atferlismeðferð sem fyrstu lausn við langvarandi svefnleysi en það hefur verið lítið aðgengi að henni og sálfræðimeðferð ekki enn orðin niðurgreidd af hinu opinbera. Það er mikilvægt að vinna í þessu af mörgum ástæðum. Þetta er dýrasta heilsufarsvandamál fyrirtækja, það eru 100% fleiri veikindagar hjá þeim sem eru svefnlausir, lakari andleg og líkamleg heilsa og áhrif á félags- og fjölskyldulíf. Þetta hefur áhrif á alla þætti lífsins.“

Erla segir að stór hópur fólks gæti verið að nýta sér lausnir sem eru nú þegar til staðar en ekki er verið að innleiða.
„Við þurfum að nota tæknilausnir og skalanleika í miklu meiri mæli. Það ætti bara að vera fólkið með alvarlegasta vandann sem þarf að leita til sérfræðinga eins og mín.“

„Það er svo skrítið að vera að fá styrki frá hinu opinbera til þess að búa til lausn, svo er lausnin tilbúin, byggð á vísindalegri þekkingu en það vill enginn nota hana vegna þess að þú ert einkaaðili og það má ekki leiða þetta saman. Það eru mörg dæmi um það að verið sé að nota íslenskt hugvit erlendis en það má ekki nota það hér. Hér fer ekki alveg saman hljóð og mynd.“

Erla telur þó að von sé á breytingum innan kerfisins í tengslum við nýsköpun.
„Mér finnst eins og þetta sé að breytast og ég held að það þær áherslur sem hafa verið hjá Nýsköpunarráðuneytinu hafi mikið með það að segja. Við erum núna í mjög spennandi samstarfi með heilsugæslunni þar sem við erum að nota rafrænu meðferðina og það er að gefa góða raun. Þetta er hluti af Fléttunni, sem er styrkveiting sem kemur fyrir tilstilli Áslaugar Örnu og hennar ráðuneytis, sem felst í því að leiða saman nýsköpun og heilbrigðiskerfið. Auðvitað á að nota opinbera kerfið og einkaaðila saman, aðila sem er búið að fjárfesta í með opinberu fé.“

Áframhaldandi áskoranir þrátt fyrir vitundarvakningu

Samkvæmt Erlu er streita helsta ástæða svefnleysis en eins og áður hefur komið fram séu ótal fleiri þættir sem leiða til svefnvanda.
„Óreglulegur svefn og koffín eru líka algengir lífsstílsþættir. Fleiri örvandi efni eins og nikótín hafa ekki góð áhrif á svefn og við erum að sjá mjög mikla aukningu í svefnvanda hjá ungu fólki. Ég er að hitta margt ungt fólk sem sefur með nikótínpúða og þetta eru þættir sem við þurfum að skoða og gera eitthvað í. Jafnvel þó að fólk sofi þá hefur þetta áhrif á gæði svefnsins og rannsóknir sýna að þessi efni skerða djúpsvefninn, sem er mjög mikilvægur.“

Erla segir að þrátt fyrir mikla vitundarvakningu varðandi svefn síðustu ár sé þó lítil breyting á venjum fólks. Hún talar fyrir aukinni fræðslu frá leikskólaaldri og mikilvægi þess að koma svefni inn í námskrá á öllum skólastigum.„Það er enginn að stæra sig af því lengur að sofa of lítið og fólk hætt að skammast sín fyrir að vera nappað í rúminu klukkan níu á laugardagsmorgni, en það má samt gera miklu betur. Til dæmis með því að koma þessu inn í menntakerfið, það er jafn mikilvægt og að læra um hreyfingu og næringu og það má setja spurningarmerki við það að bæði læknar og sálfræðingar séu að útskrifast án þess að hafa lært um svefn.“

Erla segist brenna fyrir því að hjálpa fólki að sofa og þá sérstaklega konum.
„Ég vil auðvitað sjá breytingar á þessu, og held áfram að fræða fólk um mikilvægi svefns. Mér finnst frábært að geta notað tækninýjungar til þess og er mjög spennt fyrir framhaldinu með SheSleep. Við erum að einblína á íslenskan markað út þetta ár en stefnum á norrænan markað á næsta ári. Núna erum við að klára fjármögnunarfasa og svo er það heimurinn sem bíður.“